Íslandsbanki hefur ráðið Jón Birgi Guðmundsson sem útibússtjóra Íslandsbanka á Akureyri. Jón Birgir hefur starfað hjá Sjóvá á Akureyri undanfarin 11 ár, bæði sem útibússtjóri og forstöðumaður útibúa og umboða Sjóvá utan Reykjavíkur.

Á árunum 2002-2005 starfaði Jón Birgir sem verkefnisstjóri bæjarráðs Akureyrarbæjar og var aðstoðarmaður bæjarstjóra það sem hann kom að  ýmiskonar ráðgjöf og vinnu í tengslum við endurskipulagningu á stjórnsýslu sveitarfélagsins. Jón hefur einnig starfað sem forstöðumaður Akureyrarútibús IMG og sem framkvæmdastjóri mannauðslínu IMG.

Jón Birgir er viðskiptafræðingur að mennt. Hann stundaði nám við Háskólann í Trier, en lauk B.Sc. prófinu sínu frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Jón Birgir mun hefja störf 1. október næstkomandi og tekur þá við af Inga Björnssyni. Ingi hefur starfað fyrir Íslandsbanka í 16 ár, en hann tekur nú við framkvæmdastjórastöðu Stapa Lífeyrissjóðsins á Akureyri.