Nýr vefur Viðskiptablaðsins er nú kominn í loftið. Ekki er um umbyltingu í útliti að ræða heldur hefur áhersla verið lögð á jákvæðari upplifun lesenda og þá sérstaklega áskrifenda.

Munu áskrifendur Viðskiptablaðsins sem dæmi geta nálgast allt efni blaðsins á veffréttarformi um leið og blaðið kemur út.

Með nýjum vef verða fleiri fréttir einungis opnar áskrifendum, sem er eðlileg þróun í nútíma fjölmiðlaumhverfi. Sést það best á því erlend dagblöð og tímarit eru í síauknum mæli að stíga þetta skref og mörg þeirra gerðu það fyrir löngu síðan. Þróunin hefur raunar líka verið í þessa átt hér á Íslandi og má þar nefna miðla eins og Morgunblaðið, Stundina og Túrista. Þá er rúmt ár síðan Stöð 2 fór þessa sömu leið með kvöldfréttir sínar.

Til að byrja með verða fréttir úr Viðskiptablaðinu að mestu einungis opnar áskrifendum en þegar fram líða stundir verður stærra skref tekið í þessa átt.

Hugbúnaðarfyrirtækið Overcast hefur veg og vanda af tæknilegri útfærslu en útlit og þróun hans hefur verið unnin í nánu samstarfi við Myllusetur, útgáfufélag Viðskiptablaðsins, Frjálsrar verslunar og Fiskifrétta.

Með innleiðingu á nýjum vef geta fylgt einhverjir hnökrar í skamman tíma og biðjum við lesendur að sýna því skilning.