Potturinn og Pannan hefur opnaði nú í nóvember nýjan veitingastað í miðborg Reykjavíkur í 100 ára gömlu húsi sem gjarnan hefur verið nefnt Skólabrú. Þar er jafnframt til húsa veitingasalurinn Skólabrú sem tekur allt að 150 manns í sæti. Frá 20. nóvember og fram að jólum verður boðið upp á íslenskt jólahlaðborð segir í tilkynningu.

Þar kemur fram að markmið veitingastaðarins er að bjóða upp ferskt og gott hráefni, góða þjónustu en vera jafnframt með mjög sanngjarna verðlagningu. Eigandi veitngastaðarins er Þórir Björn Ríkarðsson, en Þórir hefur rekið Pottinn og Pönnuna  í Brautarholti síðan 1996 ásamt eiginkonu sinni Önnu Sölku Knútsdótttir.

Þrískiptur rekstur

Rekstri hússins er skipt í þrennt. Á miðhæðinni er Potturinn og Pannan. Þar er boðið upp á hádegisverðarseðil sem notið hefur mikilla vinsælda hjá okkur í Brautarholtinu mörg undanfarin ár. Á kvöldin er boðið upp á hefðbundin veitingamatseðil og framundan er glæsilegt íslenskt jólahlaðborð sem hefst upp úr miðjum nóvember. Á efri hæðinni er svo Veitingasalurinn Skólabrú en þar er aðstaða fyrir allt að 150 manns í sæti. Í húsinu er jafnframt aðstaða til funda í minni sölum með öllu því sem fundir þurfa svo sem skjávarpar, háhraðanet og slíkri aðstöðu.

Saga Veitingahúss Pottsins og Pönnunar spannar 30 ár og fyrir tveimur árum opnaði Potturinn og Pannan veitingahús á Blönduósi. Starfsmenn eru í dag um 40 talsins og gerir Þórir ráð fyrir að þeim fjölgi umtalsvert á næstu mánuðum.

Endurbætur á húsinu

Skólabrú var byggð árið 1906 og er húsið því rúmlega 100 ára gamalt. Það var þáverandi landlæknir, Jónas Jonassen sem byggði húsið fyrir dóttir sína Sophiu og tengdason sinn, Eggert Claessen lögfræðing.

Í yfir 50 ár var rekin augnlæknastofa í húsinu af heiðursborgara Reykjavíkur, Kristjáni Sveinssyni og tannlæknirinn Jón Kristinn Hafsteinn var þar einnig með stofu í um 50 ár.

Undanfarin ár hefur hefur verið veitingarekstur í húsinu en á því hafa verið unnar miklar endurbætur þar sem áhersla hefur verið lögð á að halda upprunalegum arkitektúr hússins sem er einstaklega glæsilegt og býður upp á þægilegt og gott andrúmsloft í hjarta borgarinnar.