Thelma Kristín Kvaran hefur verið ráðin verkefnastjóri Jafnvægisvogar FKA. Hún er starfandi stjórnendaráðgjafi hjá ráðgjafarfyrirtækinu Intellecta og hefur umtalsverða reynslu á sviði stjórnunar. Thelma er með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst og M.Sc. í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands. FKA greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni er Jafnvægisvogin lýst sem hreyfiaflsverkefni sem unnið sé í samstarfi við forsætisráðuneytið, Sjóvá, Deloitte, Árvakur og PiparTBWA. Tilgangur verkefnisins sé að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi og virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.

„Thelma Kristín mun vinna náið með stjórnendum í fyrirtækjum, sveitafélögum og stofnunum og þjónusta atvinnulífið í gegnum störf sín fyrir Jafnvægisvogina. Stjórnendur í íslensku samfélagi eru að takast á við áskoranir þar sem Jafnvægisvogin er þarft verkfæri og góð leið til að dýpka skilningi á jafnréttismálum og auðvelda atvinnulífinu að verða við þeim kröfum sem hið opinbera regluverk setur okkur í málaflokknum,“ segir í tilkynningu FKA.

„Jafnvægisvogin er virkilega þarft verkefni og ég er full tilhlökkunar og þakklætis. Það er von mín að á komandi árum verði þetta verkefni hvatning til fyrirtækja og stofnana að sækjast eftir jöfnum áhrifum kvenna, því það er samfélagslegur ávinningur okkar allra," segir Thelma Kristín í tilkynningunni.