Parið Agnes Aspelund og Víðir Ingþórsson, sem búsett eru á Ísafirði, tóku nýverið við fyrirtækinu True Viking ehf., sem um þessar mundir framleiðir aðallega herrailm undir nafni félagsins. „Hallvarður Aspelund, tengdafaðir minn, þróaði og hannaði Ilminn árið 2001,“ segir Víðir. „Varan er búin að vera í sölu með hlé­ um frá árinu 2001, en við vorum að taka við lyklunum af frænda Hallvarðar sem endurvakti True Viking árið 2011.“

Víðir lítur framtíðina björtum augum og hefur mikla trú á vörunni. „True Viking ilmurinn er um þessar mundir seldur bæði sem hefðbundið ilmvatn „eau de toilette“ og sem rakspíri. Ilmurinn, sem er sá eini sinnar tegundar í heiminum, kemur frá Frakklandi og er blandaður hjá Tandri í Reykjavík með íslensku vatni. Síðan er honum tappað á flöskur og pakkað á Ísafirði. Að baki ilminum liggur mikil greiningar- og þróunarvinna. Niðurstaðan var karlmannlegur ilmur með viðar- og sítruskeimi.“

Einstök hönnun

Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Ísafirði og segir Víðir fyrirtækið leggja nokkra áherslu á hina vestfirsku tengingu við markaðssetningu vörunnar. Þá undirstrikar hann jafnframt einstaka hönnun flöskunnar. „Hallvarður hannaði útlit flöskunnar sem minnir á drykkjarhorn víkinga. Hann úthugsaði öll smáatriði og tók vegferðin frá hugmynd til vöru á markað tvö ár. “ Spurður um hvernig það hafi komið til að Hallvarður hafi ákveðið að hanna ilmvatn segir Víðir tengdaföður sinn vera mikinn frumkvöðul. „ Hann er mjög hugmyndaríkur. Þetta er ein af fjölmörgum hugmyndum sem hann hefur fengið og hann fór með þetta alla leið.“

Viðtalið má sjá í fullri lengd í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.