CCP hefur ráðið Sean Decker nýjan yfirmann vöruþróunar hjá fyrirtækinu. Decker hefur lengi unnið í leikjageiranum erlendis, en áður en hann kom til CCP var hann yfirmaður „Play4Free“ hópsins hjá leikjarisanum EA, en hópurinn sér um gerð, rekstur og birtingu leikja sem byggja á „free-to-play“ viðskiptamódelinu.

Sean Decker.
Sean Decker.

Þetta módel er einmitt það sem nýjasti leikur CCP, Dust 514, byggir á. Það felur í sér að leikurinn sjálfur er ókeypis, en spilarar geta keypt alls konar hluti og þjónustu til að létta sér lífið í leiknum.

Áður en hann tók við Play4Free hópnum hafði Decker verið framkvæmdastjóri hjá DICE og sá m.a. um Battlefield og Mirror's Edge leikina, sem notið hafa mikillar hylli víða um heim.

Í tilkynningu frá CCP er haft eftir Hilmari Veigari Péturssyni, forstjóra CCP, að reynsla Decker muni reynast fyrirtækinu dýrmæt nú þegar fyrirtækið sé að stíga sín fyrstu skref inn í annan áratug EVE Online heimsins.