Samstarfshópurinn NYOP, undir forystu fasteigna- og þróunarfélagsins Nýsis, hefur verið falið að byggja og reka skóla í Skotlandi, segir í fréttatilkynningu. Niðurstöður útboðsins voru tilkynntar í dag og nemur áætlaður stofnkostnaður verkefnisins 15 milljörðum króna.

Í fréttatilkynningu frá hópunujm segir að verkefnið felst í að byggja sjö nýja grunnskóla, endurbyggja einn grunnskóla, byggja tvo nýja framhaldsskóla og að endurbyggja eina íþróttamiðstöð.

Skólarnir verða byggðir á árunum 2007-2009 og leigðir Aberdeenborg í 30 ár. Rekstur bygginganna verður í höndum verksala út samningstímann. Að samningstímanum loknum eignast borgin mannvirkin.

Útboðsferlið hófst með forvali á árinu 2005 og að því loknu voru valdir þrír hópar bjóðenda. Þeir skiluðu inn tilboðum sínum í apríl síðastliðinn Að því loknu var útboðið endurskilgreint þannig að tekin var afstaða til allra frávikstilboða og bjóðendum gefinn kostur á að endurbæta tilboð sín.

Endurbætt tilboð voru lögð fram 25. ágúst síðastliðinn. Að loknu matsferli hjá Aberdeenborg og skosku heimastjórninni var samstarfshópurinn NYOP valinn. Samningsferlið sjálft er eftir og er áætlað að það taki u.þ.b. 4-5 mánuði.

Í samstarfshópnum NYOP eru eftirtalin fyrirtæki: Nýsir hf. og dótturfélagið Nysir UK Limited stjórna verkefninu og eru meginfjárfestir. Byggingarverktaki er E. Pihl & Sön A/s, móðurfyrirtæki Ístaks hf., í samstarfi við Stewart Milne Group í Aberdeen.

Rekstur bygginganna á samningstímanum verður í höndum breska fasteignastjórnunarfyrirtækisins Operon, sem er í meirihlutaeigu Nysir UK Limited, dótturfyrirtækis Nýsis. Operon sér einnig um alla lagnahönnun.

Arkitektar að byggingunum eru íslensku arkitektastofurnar Á stofunni og VA arkitektar í samstarfi við Aedas arkitektastofuna í Skotlandi. Buro Happold annast alla byggingaverkfræði vegna verkefnisins.

Landsbanki Íslands er megin fjármögnunaraðili verkefnisins, bæði á byggingartímanum og síðan út samningstímann.

VÍS og dótturfélagið IGI Group í Bretlandi munu tryggja mannvirkin.

Ráðgjafafyrirtækið PFI Solutions hefur starfað fyrir Nysir UK Limited við að stýra tilboðsgerðinni og veitt fjárhagslega ráðgjöf.