Gengið hefur verið frá samkomulagi um kaup á öllu hlutafé í Borgarhöllinni hf., sem er eignar- og rekstraraðili íþróttamiðstöðvarinnar Egilshallarinnar í Grafarvogi. Nýsir hf. sem starfar á sviði einkaframkvæmdar opinberrar þjónustu, fasteignastjórnunnar og annarra rekstrarverkefna hefur keypt allt hlutafé af Trésmiðju Snorra Hjaltasonar ehf. og JB Byggingarfélags ehf. í Borgarhöllinni hf. Borgarhöllin hf. verður rekin sem dótturfélag Nýsis hf.

Nýsir hf. á nú yfir 55 þúsund fermetra af útleigðu þjónusturými en þar af er Egilshöllin 24 þúsund fermetrar. Aðrar helstu eignir Nýsis hf. eru Iðnskólinn í Hafnarfirði, Íþróttamiðstöðin Björk, Lækjarskólinn í Hafnarfirði, Heilsu- og sundmiðstöðin Laugar auk leikskóla í Hafnarfirði og Grindavík.

Fyrirtækjasvið MP Fjárfestingarbanka hf. annaðist ráðgjöf við söluna og kemur að fjármögnun kaupanna. Kaupverð er trúnaðarmál.