Nýsir hf. hefur verið úrskurðað gjaldþrota hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og hafa þeir Ástráður Haraldsson og Þorsteinn Einarsson verið skipaðir skiptastjórar.

Undir starfsemi Nýsis falla fjölmörg félög en tvö þeirra voru áður komin í gjaldþrotaskipti: Nýsir fasteignafélag ehf. og Engjateigur ehf.

Það fyrrnefnda innihélt allar fasteignir félagsins en starfsemi Nýsis var gríðarlega umfangsmikil og náði til margra landa.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru eignir litlar sem engar en kröfur verulegar, svo skiptir tugum milljarða króna. Þar er stærstur skuldabréfaflokkur sem félagið gaf út í Kauphöllinni í byrjun árs 2008 og var upp á 15 milljarða króna og var seldur til stofnfjárfesta og þar á meðal lífeyrissjóða.

Eftir því sem komist verður næst náðist aldrei að greiða afborganir og vexti af þessum flokki.

Samkvæmt tilkynningu frá Kauphöllinni í dag hefur verið ákveðið að taka skuldabréfa Nýsis úr viðskiptum þar sem félagið er orðið gjaldþrota.