Fasteigna- og þróunarfélagið Nýsir hyggst leggja inn tilboð í endurbyggingu á 15 skólum í Vilníus í Litháen en útboðsferli vegna þess hefst innan skamms. Að sögn Sigfúsar Jónssonar, framkvæmdastjóra Nýsis, er verið að bjóða endurbyggingu skólanna út í einkaframkvæmd.

Útboðið byggist á því að rekstur bygginganna verði í höndum verksala út samningstímann ásamt viðhaldi og þjónustu. Að samningstímanum loknum eignast borgin mannvirkin rétt eins og átti við um nýlegt útboð í Skotlandi en þar hreppti Nýsir samskonar verkefni upp á 15 milljarða króna. Þar var um að ræða nýbyggingar en í Vilníus verða eldri skólar endurbyggðir. Því er um að ræða minna verkefni sagði Sigfús.

Forval vegna verkefnisins er að hefjast og sagði Sigfús að Nýsir hefði tilkynnt að félagið hygðist taka þátt í því en um framhald málsins er eðlilega ekki hægt að segja. Að loknu forvali verða valdir þrír tilbjóðendur og sagðist Sigfús gera ráð fyrir að niðurstaða lægi fyrir í haust hver hreppti verkið.

Nýsir hefur tengst verkefnum við Eystrasaltið undanfarin ár en hér er um að ræða mun stærra verkefni en félagið hefur ráðist í áður á því svæði. Nýsir er nú með einkaframkvæmdaverkefni í gangi í Danmörku, Bretlandi auk Íslands.