Kröfuhafar Nýsis hafa hafnað tillögu um 40 til 50% lúkningu skulda. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Haft er eftir einum kröfuhafanum að hann telji að hægt verði að semja um betra boð.

Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að því að finna lausn á greiðslu skulda Nýsis en óveðtryggðar skuldir félagsins nema 10 til 15 milljörðum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Þær eru að mestu leyti í formi skuldabréfa og víxla og er meirihluti þeirra í eigu lífeyrissjóða, verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða.

Greint var frá því í Viðskiptablaðinu í júní að Landsbankinn, sem stýrir fjárhagslegri endurskipulagningu Nýsis, hefði boðið kröfuhöfum Nýsis sáttaleið sem fól í sér 40 til 40% lúkningu skulda. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja því boði hafi verið hafnað.

Höskuldur Ásgeirsson, forstjóri Nýsis, vísaði því þó á bug, þegar það var borið undir hann í gær. "Það er verið að vinna í málinu og því mun væntanlega ljúka í lok ágúst," sagði hann.

Lífeyrissjóðir meðal kröfuhafa

Landsbankinn er langstærsti lánadrottinn Nýsis en þar á eftir koma Glitnir og Kaupþing og þýski bankinn Aareal Bank sem fjármagnaði að miklu leyti  fasteignaverkefni Nýsis í Danmörku.

Auk þess eiga nokkrir lífeyrissjóðir skuldabréf sem gefin eru út af Nýsi, en lífeyrissjóðurinn Stafir og lífeyrissjóðurinn Gildi eiga slík bréf að andvirði u.þ.b. 50-60 milljónir króna og Lífeyrissjóður verkfræðinga og lífeyrissjóðurinn Stapi eiga einnig slík bréf en Viðskiptablaðið fékk ekki gefið upp andvirði þeirra.

Lán bankanna eru að mestu leyti veðtryggð, bæði hefðbundin vísitölulán og lán í erlendri myntkörfu, og hafa veð í fasteignaverkefnum til langs tíma. Öðru máli gegnir um þá sem keypt hafa skuldabréf og víxla af Nýsi