BP-Skip ehf. hefur fest kaup á 66% hlut í Sæblómi ehf. sem rekur útgerð og fiskvinnslu í Marokkó. Seljandi er Nýsir ehf. sem mun áfram eiga 34% hlutafjárins.

Kaupunum fylgja þrjú uppsjávarveiðiskip, fimm fiskvinnslur í landi og ráðstöfun á 90.000 tonna árskvóta af markíl og sardínu. Stefnt er að 50-60 milljóna dollara ársveltu sem jafngildir um fjórum milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi.

Björgvin Ólafsson framkvæmdastjóri BPSkipa ehf. staðfesti þetta í samtali við Fiskifréttir. Fram kom í máli hans að öll skipin lönduðu afla sínum til vinnslu í landi og væri heildarfrystigetan þar um 400 tonn á sólarhring. Alls starfa um 800 manns hjá fyrirtækinu.

Tvö skipanna eru gamlir kunningjar frá Íslandi, Álsey VE sem nú heitir Carpe Diem og Örn KE sem nú ber nafnið Quo Vadis. Þriðja skipið var keypt frá Skotlandi og heitir Que Sera Sera. Tvö síðarnefndu skipin eru með sjókælitanka en Álsey með ískælingu.

Íslenskir vélstjórar eru á öllum skipunum og íslenskir skipstjórar á tveimur þeirra en færeyskur á því þriðja. Frystitogarar sem áður voru tengdir þessu verkefni í Marokkó fylgja ekki með í kaupunum.