Nýsir hf. hefur ákveðið að stækka skuldabréfaflokk félagsins NYSI 03 1 um 100 milljónir króna að nafnverði en flokkurinn er skráður í Kauphöll Íslands. Heildarnafnverð skuldabréfaflokksins verður eftir stækkun 450 milljónir króna. Skuldabréfin voru seld í lokuðu útboði og var MP Fjárfestingarbanki hf. umsjónaraðili skuldabréfaútboðsins.

Að sögn Stefáns Þórarinssonar, rekstrarstjóra Nýsis hf., er þessi aukning til að mæta kostnaði við nýjustu framkvæmdir hjá félaginu, s.s. kaupunum á Egilshöll og nýbyggingarverkefnum.

Nýsir hf. starfar á sviði einkaframkvæmdar opinberrar þjónustu, fasteignastjórnunnar og annarra rekstrarverkefna. Helstu eignir félagsins eru Iðnskólinn í Hafnarfirði, Íþróttamiðstöðin Björk, Lækjarskólinn í Hafnarfirði, Heilsu- og sundmiðstöðin Laugar auk leikskóla í Hafnarfirði og Grindavík. Þá festi félagið nýverið kaup á öllu hlutafé Borgarhallarinnar hf. sem er eignar- og rekstraraðili íþróttamiðstöðvarinnar Egilshallarinnar í Grafarvogi. Félagið á nú yfir 55 þúsund fermetra af útleigðu þjónusturými en þar af er Egilshöllin 24 þúsund fermetrar.

"Við erum einnig að vinna í ýmsum þróunarverkefnum sem ekki verður greint frá strax þannig að fjármögnunin tengist því líka," sagði Stefán.