Fasteignarekstrarfélagið Nýsir hefur selt skuldabréf að virði 950 milljónir og verður andvirðið nýtt til að kaupa breska fasteignaumsýslu- og þjónustufyrirtækið Operon, sagði Stefán Þórarinsson, stjórnarformaður Nýsis, í samtali við Viðskiptablaðið í gær. Hann sagði um fyrirgreiðslu að ræða sem tryggir félaginu einkaviðræður við hluthafa Operon.

Stefán sagði Operon, sem staðsett er í Harrogate á norð-austur Englandi en stundar viðskipti víða á Bretlandi, verðmetið á um 40 milljónir punda, sem samsvarar 5,4 milljörðum íslenskra króna.

"Kaupin, ef þau ganga eftir, eru lykillinn af frekari vexti á Bretlandseyjum", sagði Stefán. Hann bætti við að Operon hafi verið samstarfsaðili Nýsis í Bretlandi og að kaupin séu gerð í samvinnu við stjórnendur breska fyrirtækisins. Stefnt er að því að eignarhlutur Nýsis verði í kringum 70% ef samningar nást um yfiröku, sem er háð áreiðanleikakönnun.

MP Fjárfestingabanki sá um sölu skuldabréfanna í lokuðu útboði til fagfjárfesta og stækkar NYSI 03 1 skuldabréfaflokkur Nýsis í 1,4 milljarða í kjölfarið. Skuldabréfin eru skráð í Kauphöll Íslands og lokagjaldagi er í júlí 2008.