Philippe de Buck, framkvæmdastjóri BUSINESSEUROPE, ræddi um mikilvægi nýsköpunar á opnum fundi SA og SI sl. föstudag og sagði hana drifkraft efnahagslegra framfara. De Buck lagði áherslu á góð starfsskilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja en sagði það ekki síður mikilvægt að leyfa þeim að stækka verulega og eflast. Hann benti t.a.m. á að lítil og meðalstór fyrirtæki í Evrópu eru almennt minni en sambærileg fyrirtæki í Bandaríkjunum. Þessu þarf að breyta að mati de Buck sem hvetur til þess að þátttakendur í atvinnulífinu hugsi stórt.

Öflug og farsæl nýsköpun eflir samkeppnishæfni þjóða og það er nauðsynlegt að fjárfesta í nýsköpun á fjölmörgum sviðum til að leysa þær áskoranir sem þjóðir heimsins standa frammi fyrir s.s. á sviði umhverfismála, orkumála og heilbrigðismála. Philiippe de Buck segir jafnframt mikilvægt að nýsköpun sé nýtt á öllum sviðum atvinnulífsins, hvort sem það er á sviði vísinda- og tækni, hönnunar eða verslunar og þjónustu svo eitthvað sé nefnt.

Framkvæmdastjóri BUSINESSEUROPE segir möguleika evrópskra fyrirtækja til að sækja fram mikla en því miður hafi það reynst mörgum þeirra erfitt að breyta vísindalegri þekkingu í verðmætar framleiðsluvörur eða þjónustu. Úr því megi bæta með því bæta regluverk og stórefla iðn- og tæknimenntun sem atvinnulífið muni á endanum njóta. Þær þjóðir sem bjóði upp á bestu menntunina muni skara fram úr og bjóða upp á bestu lífskjörin. Þetta kemur fram á vef SA.