„Síðasti söludagur er stimplaður á flestar neysluvörur en fyrirtækin og atvinnulífið verður sjálft að vera á varðbergi gagnvart því að tækni sé farin að úreldast,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

„Einu sinni hafði frasinn „Kodak moment“ mjög jákvæða skírskotun. Kodak gnæfði yfir þeim markaði sem festi skemmtileg augnablik á filmu. En svo varð filman úrelt og í dag vill enginn upplifa „Kodak moment“ í sínum bransa, að verða úreltur og missa af lestinni. Það kallar á að skoða stöðugt umhverfið og leita sífellt að tækifærum til nýsköpunar. Þetta gildir fyrir einstaklinga, sem og fyrirtæki á markaði og opinberar stofnanir.

Undanfarinn áratug höfum við séð mörg dæmi um nýja tækni sem valdið hefur miklu raski og haft gríðarleg áhrif á daglegt líf okkar. Oftast tökum við sem neytendur tækninni fagnandi enda leysir hún venjulega verkefni á betri og einfaldari hátt en áður var mögulegt. Frá sjónarhóli neytandans eru tæknibreytingar þannig jákvæðar á meðan neikvæðu hliðarnar eru gjarnan minna sýnilegar. Stundum eru þær lengur að koma fram eða tengjast okkur ekki beint. Neytendur hafa til dæmis verið fljótir að tileinka sér þjónustu Uber þótt leigubílafyrirtækin séu ekki par ánægð.

Fyrirtæki ættu því að vera í stöðugri nýsköpun og Nýsköpunarmiðstöðin vill leggja sitt af mörkum til að auðvelda starfsfólki sem og stjórnendum að tileinka sér þessa nálgun. Dæmi um þjónustu sem við veitum starfandi fyrirtækjum er aðgangur án endurgjalds að hagnýtu og aðgengilegu námsefni um stafrænan rekstur og markaðssetningu undir heitinu „Stafrænt forskot”. Efnið er ætlað öllum þeim sem vilja ná betri árangri í markaðsmálum og rekstri, með því að auka þekkingu sína á vef, samfélagsmiðlum og annarri stafrænni tækni.

Nýsköpunarmiðstöð, í samstarfi við Byggðastofnun, hefur einnig boðið fyrirtækjum úti á landi upp á vinnustofur sem frumkvöðlar og fyrirtæki geta nýtt sér, þar sem farið er yfir stafræna stefnu, markaðssetningu á samfélagsmiðlum, markhópa og auglýsingar á samfélagsmiðlum. Þetta efni kemur ekki í staðinn fyrir sérhæfða ráðgjöf og þjónustu við hönnun. Stafrænt forskot gæti hins vegar verið fyrsta skref margra fyrirtækja í að sækja ákafar fram í stafrænum efnum og mun því frekar auka eftirspurn eftir ráðgjöf, hönnun og forritun,“ segir Sigríður.