Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvegaog nýsköpunarráðherra, kynnti á dögunum nýja Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Er stefnunni ætlað að gera Ísland betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum. Fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi, fulltrúar atvinnulífsins og háskólasamfélagsins tóku þátt í að móta stefnuna en Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar hjá Google Assistant, stýrði vinnu hópsins.

Umrædd stefna markar sýn til ársins 2030. Samkvæmt fréttatilkynningu sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sendi frá sér vegna stefnunnar, er markmið hennar að árið 2030 sé Ísland fjölbreytt samfélag velferðar, öryggis og jafnra tækifæra. Ísland verði í fremstu röð þegar borin eru saman lífsgæði og hamingja í löndum heims. Samfélag þar sem nýsköpun sé inngróin í menningu og efnahagslíf og kjörlendi til að setja á fót og starfrækja alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki. Samfélag þar sem virðing sé borin fyrir frumkvöðlum og skapandi einstaklingum í efnahagslífi og menningu og sé fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar sjálfbæra þróun.

Undirliggjandi hugmyndafræði komandi aðgerða

„Þetta er í fyrsta sinn sem mótuð er heildstæð nýsköpunarstefna fyrir Ísland og mótun hennar hefur verið eitt forgangsmála minna. Það er kveðið á um mótun hennar í  stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og hefur verið mikill einhugur um málið.  Nú höfum við teiknað upp þá grunnsýn sem verður undirliggjandi hugmyndafræði þeirra aðgerða sem munu fylgja í kjölfarið. Og þar er ég ekki bara að tala um á næstu mánuðum og misserum heldur á næstu árum því að hér hefur að mínu mati verið vandað það vel til verka með víðtæku samráði að þessi hugmyndafræði á að geta staðið sem leiðarljós langt út fyrir núverandi kjörtímabil og núverandi ríkisstjórn. Nýsköpun er einfaldlega nauðsynleg samfélaginu. Hún eykur samkeppnishæfni Íslands á öllum sviðum og hún er áskorun sem við þurfum öll að takast á við til að tryggja framúrskarandi lífskjör og velsæld á Íslandi á komandi áratugum," segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Að sögn Þórdísar hafa stjórnvöld aukið framlög til nýsköpunar jafnt og þétt, sem endurspeglist til að mynda í fjárlögum næsta árs þar sem heildarútgjöld nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukist um 1,7 milljarða eða sem svarar til rúmlega 11%. „Þess ber þó að halda til haga að í nýsköpunarstefnunni er lögð áhersla á að mikilvægt er að passa upp á að fjármagnið nýtist sem best á réttum stöðum með það að leiðarljósi að fjármagn renni frekar til rannsókna og frumkvöðla en í umsýslu og yfirbyggingu. En það er líka mikilvægt að muna að árangur snýst ekki eingöngu um aukið fjármagn og aðgerðirnar sem ég mun koma fram með hafa til dæmis flestar engan kostnað í för með sér.“

„Eins og kemur fram í stefnunni eru stjórnvöld og hið opinbera þáttur í nýsköpunarkeðjunni, allt frá stefnumótun, menntun og innviðum, yfir í mótun rekstrarumhverfis, þar á meðal fjármála og skattaumgjarðar. Mikilvægt er að eiga gott samtal við hagaðila nýsköpunar, eitthvað sem við höfum lagt mikla áherslu á, sérstaklega við mótun stefnunnar. En það þarf einnig að auka skilvirkni í stuðningsumhverfi nýsköpunar, auka samstarfið milli atvinnulífsins og menntakerfisins og svo atvinnulífsins og opinberra kerfisins.  Einföldun og endurskoðun regluverks mun einnig vera lykilatriði þegar snýr að þessu. Stjórnvöld þurfa að gæta þess að stuðnings-, laga- og rekstrarumhverfi á Íslandi bjóði upp á stofnun, vöxt og starfsemi alþjóðlega samkeppnishæfra nýsköpunarfyrirtækja. Ríkið þarf svo einfaldlega að vera opnara gagnvart því að hleypa nýsköpun inn í sín annars alltof lokuðu kerfi," segir Þórdís Kolbrún, spurð um hvað ríkið þurfi helst að bæta hjá sér til þess að markmið stefnunnar náist og hvað ríkið geti helst gert til að örva og stuðla að nýsköpun á Íslandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .