Metanólverksmiðja nýsköpunarfyrirtækisins Carbon Reycling International, CRI, í Svartsengi stendur nú fullbyggð og fullbúin og eru prófanir á tækjabúnaði hennar nú þegar hafnar að sögn Benedikts Stefánssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar CRI. Hann segir fyrstu prófanir hafa farið fram fyrir tíu dögum en nú sé verið að vinna úr niðurstöðum þeirra. „Við erum ekki alveg búin að ákveða dagsetningu gangsetningar, en stefnum á að verksmiðjan verði keyrð í gang að fullu í nóvember,“ segir Benedikt.

Verksmiðjan stendur um 500 metrum frá orkuveri HS Orku í Svartsengi og er hugmyndin sú að vinna metanól úr útblæstri orkuversins. Að sögn Benedikts samanstendur útblásturinn af gufu og gasi sem er að stórum hluta koltvísýringur en 90% gassins sem blásið er út úr orkuverinu er koltvísýringur. „Það er áratugagömul þekking að baki því að fræðilega sé hægt að búa til metanól með efnahvarfi þegar koltvísýringur og vetni koma saman en það er ekki fyrr en nú sem hægt hefur verið að breyta þessu gasi í fljótandi metanól utan rannsóknarstofu,“ segir Benedikt. Þá mun verksmiðjan nota raforku frá orkuverinu og er nálægðin við orkuverið mikilvægur þáttur.

Til útflutnings

Framleiðslugeta verksmiðjunnar, sem er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, er 2 milljónir lítra af fljótandi metanóli á ári en hægt er að auka hana í 5 milljónir lítra. Þá hefur CRI verið í viðræðum við Landsvirkjun um byggingu stærri verksmiðju við Kröflu en framleiðslugeta þeirrar verksmiðju yrði um 50 milljónir lítra á ári og yrði metanólið þá framleitt til útflutnings. „Metanólið verður notað til blöndunar í eldsneyti bíla en við erum fyrstir í heiminum til þess að framleiða vistvænt metanól úr vetni og koltvísýringi,“ segir Benedikt og bætir því aðspurður við að samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins megi blanda bensín þannig að 3% blöndunnar sé metanól. „Við stefnum að því að framleiða eldsneyti sem passar í alla bensínbíla eins og þeir eru í dag. Ísland er langt á eftir öðrum þjóðum hvað varðar notkun vistvæns eldsneytis,“ segir hann.

Varð til á servéttu

Verksmiðja CRI í Svartsengi er nýsköpun í sinni tærustu mynd að sögn Benedikts. Hann segir hugmyndina hafa orðið til á servéttu fyrir sex árum. Síðan hafi hún verið þróuð á rannsóknarstofu á Höfðabakka, m.a. með styrk frá Rannís, og í fyrra hafi hluthafar komið saman og ákveðið að byggja verksmiðju. Nú stendur verksmiðjan fullbúin og fer brátt í gang.

Fjárfestingin að baki verksmiðjunni nemur samtals um 15 milljónum dala að sögn Benedikts, eða um 1,7 milljörðum króna, og segir hann ekki krónu hafa verið tekna að láni. Hluthafar CRI eru samtals um 50 talsins og eiga 10 þeirra meirihluta hlutafjárins. Stærsti hluthafi fyrirtækisins er Títan fjárfestingarfélag sem eins og kunnugt er er í eigu Skúla Mogensen. Hann á einnig sæti í stjórn, ásamt m.a. Sindra Sindrasyni, sem er stjórnarformaður, og Tönyu Zharov, sem situr í stjórn fyrir hönd Auðar Capital. Forstjóri er Bandaríkjamaðurinn KC Tran.