Í nýlegri könnun KPMG á meðal 1.200 forstjóra um allan heim kemur fram að stjórnendur hafa verulegar áhyggjur af nýsköpun innan sinna fyrirtækja. Þeir óttast að viðskiptavinir hverfi til samkeppnisaðila og að viðskiptamódelin þeirra verði fljótt úrelt. Að mati KPMG geta stjórnendur á Íslandi ekki horft framhjá þessari þróun og verða að mæta henni með árangursríkum aðgerðum.

Með það fyrir augum að aðstoða fyrirtæki við slíkt hefur KPMG þróað lausnir til að auka nýsköpun innan starfandi fyrirtækja. Stefán Þór Helgason starfarásamt Sævari Kristinssyni í umræddu teymi KPMG. „Þegar kemur að nýsköpun hefur kastljósinu hér á landi eðlilega verið beint mjög mikið að sprotafyrirtækjum. Við höfum hins vegar verið að setja meiri kraft í að aðstoða fyrirtæki sem hafa verið starfandi í lengri tíma og eru með kúnnahóp, fjármagn og allt sem með þarf en eru þrátt fyrir það að horfa upp á umtalsverðar breytingar í umhverfi sínu. Við höfum þannig til að mynda verið að vinna með bönkum og tryggingarfélögunum. Við bjóðumfyrirtækjum upp á ráðgjöf og aðstoð við það að átta sig á stöðunni og meta hvaða breytingar eru í vændum. Auk þess höfum við verið að tengja stór fyrirtæki við gagnleg sprotafyrirtæki á markaðnum. Þetta er ekki síst mikilvæg þjónusta fyrir íslensk fyrirtæki sem eru í samkeppni við fyrirtæki erlendis frá,“ útskýrir Stefán.

Sjálfkeyrandi bílar ekki endilega framtíðartónlist

Stefán segir margar rótgrónar starfstéttir nú standa frammi fyrir því að hefðbundin viðskiptamódel þeirra eru að taka miklum breytingum og það mun hraðar en áður. Nefnir hann bílaiðnaðinn, tryggingarfélög, banka og fyrirtæki í gistihúsarekstri sem dæmi um starfsemi sem stendur nú á einhvers konar krossgötum. „Ef við tökum tryggingargeirann til að mynda sem dæmi þá hefur hann í raun verið nokkurn veginn eins síðastliðin 100 ár. Grunnhugmyndin er alltaf sú sama: Að draga úr áhættu og dreifa henni. Helsta nýsköpunin hefur falist í því hvað á að tryggja. Fyrst voru það einfaldlega fasteigna- og bílatryggingar en svo bættust við flóruna líftryggingar og tryggingar fyrir gæludýr og íþróttastjörnur svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Stefán.

En nú virðist sem tækninýjungar bá bílamarkaði geti haft í för með sér breytt umhverfi fyrir tryggingarfélögin þar sem fyrirtæki á borð við Goggle hyggjast nú koma sjálfkeyrandi bíla á markað. Stefán útskýrir að bílarnir séu hannaðir með það m.a. að markmiði að draga mjög úr umferðaróhöppum og gætu jafnframt haft það í för með sér að fjöldi bifreiða minnki á götunum. Þá vakni jafnframt ýmsar spurningar um það hvar ábyrgð á tjóni komi til með að liggja þegar slík farartæki lenda í slysi. „Þegar þú ert með bíl sem er forritaður af fyrirtæki erlendis til að taka réttar ákvarðanir án aðkomu farþegans þá er nokkuð ljóst að áleitnar spurningar geta vaknað um hvar ábyrgð á tjóni liggur ef slys verður. Það sem tryggingarfélögin munu þó sennilega hafa hvað mestar áhyggjur af er hversu mjög slíkir bílar munu draga úr slysum og þá um leið lækka iðgjöld. Tilgangurinn með tryggingum verður þá minni og minni þegar slysin verða færri og jafnvel minni háttar. Þess vegna eru menn í tryggingargeiranum farnir að velta fyrir sér hvað þeir geti gert í staðinn til að bæta upp fyrir þann hluta af starfseminni enda eru bílatryggingarnar langstærsti hlutinn af starfsemi tryggingarfélaganna og bera hæstu iðgjöldin,“ segir hann.

Nú hljómar þetta eins og verið sé að líta mjög langt inn í framtíðina,er þetta raunverulega eitthvað sem tryggingarfélögin þurfa að vera að velta fyrir sér?

„Þetta hljómar kannski eins og mikil framtíðarmúsík en þetta er í raun mun nær okkur en margir halda. Ég ferðaðist til að mynda til San Francisco fyrir nokkru og skoðaði höfuðstöðvar Google og þar voru starfsmenn keyrandi um á svona bílum. Spurningin er bara hversu hröð þróunin verður og hversu almenn notkun þeirra verður. En þeir virðast þó geta sett bílana út í umferðina smám saman. Rökin fyrir hönnuninni eru í grunninn að bílarnir og tæknin eru betri ökumenn en fólk. Prófanir gefa til kynna að bílarnir valda minni slysum og eru um leið forritaðir til að hlíta umferðarlögum. Þetta myndi líka fela í sér byltingu þegar kemur að eignarhaldi á bílum, þar sem þörfin fyrir því að eiga bíla myndi snarminnka,“ svarar Stefán og bætir við að tryggingarfélögin hér á landi séu nú þegar farin að velta þessum möguleika fyrir sér, enda sjái þau hversu hratt þessi tækni gæti þróast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.