Vilborg Helga Harðardóttir, forstjóri Já, segir að undanfarin ár hafi hún lært af reynslunni að rosalega erfitt geti verið að setja sér tímaáætlanir fyrir verkefni í nýsköpun.

„Nýsköpun felur í sér ákveðna óvissu, því verið er að skapa eitthvað sem ekki hefur verið gert áður. Þegar ferlið fer af stað veistu heldur ekki nákvæmlega hvað á eftir að koma upp á leiðinni. Hér starfar fólk sem er frjótt í hugsun, með mikla þekkingu og stórar hugmyndir og því eiga verkefnin það til að stækka. Þessu fylgir því sá þáttur sem er hvað erfiðastur í starfinu, það er þegar forgangsraða þarf verkefnum og hugmyndum. Okkur langar að gera svo margt og það er stöðugt verkefni að velja og reyna að afmarka okkur til að halda fókus.

Við höfum lagt áherslu á það að reyna að draga lærdóm af aðstæðum, verkefnum og frammistöðu. Það hefur nýst gríðarlega vel í vöruþróun og við sjáum næg tækifæri þar. Á liðnu ári þurftum við oftar en einu sinni að staldra við til að fækka verkefnum og forgangsraða þeim. Sumt þurfti að komast sem fyrst í loftið, öðru var hægt að bæta við síðar og enn annað var sett á ís. Tími og peningar eru ekki óþrjótandi auðlindir og stundum þarf maður að stoppa og hugsa hvernig þeim skal deilt milli núverandi reksturs og nýsköpunar,“ segir Vilborg.

Kjarninn í starfsemi Já hefur undanfarin ár verið utanumhald og rekstur rafrænnar upplýsingaveitu á Já.is og í gegnum samnefnt snjallforrit. Jafnt og þétt hefur verið bætt við síðuna, meðal annars með kortum og nú nýverið með leitarvél fyrir vefverslanir.

„Notkunin á Já er mikil og snertifletir starfseminnar við Íslendinga eru ótrúlega margir. Við erum með um 3,5 milljónir leita á mánuði í miðlum Já og um það bil hálfa milljón notenda. Okkar mælingar sýna að Já vefurinn og appið eru vinsælustu leiðir landsmanna til að finna upplýsingar um heimilisföng, símanúmer og opnunartíma fyrirtækja,“ segir Vilborg.

„Markmiðið með vöruleitinni er að leiða saman neytendur og vefverslanir og einfalda þeim að eiga viðskipti. Vefverslun hefur aukist mjög mikið síðustu ár en er þó enn talsvert minni en í nágrannalöndunum. Vöruleitin styður vel við þessa þróun og teljum við að gríðarlegir möguleikar séu til staðar í frekari þróun til að auðvelda slík viðskipti. Í fyrra bættist leitarvélin við snjallforritin en með henni er hægt að fá yfirlit yfir hvar varan fæst, gera verðsamanburð milli seljenda innanlands, flokka eftir söluaðilum og sjá hvort vara er til á lager. Því til viðbótar er auðvelt að sjá hvar viðkomandi verslun er staðsett ef viðskiptavinurinn vill fara á staðinn,“ segir forstjórinn. „Viðtökurnar við þessari viðbót hafa verið góðar, notkunin fer vaxandi en ég tel að við eigum heilmikið inni á þessu sviði. Ég hef trú á að áður en langt um líður verði vöruleitarvélin á Já.is orðin jafnmikilvægur þáttur í daglegu lífi Íslendinga og upplýsingaleitarvélin á Já.is.“

Það er engum blöðum um það að fletta að helsta samkeppni Já á þessum vettvangi kemur erlendis frá. Forstjórinn segir það áskorun að skapa og viðhalda sérstöðu við risastór alþjóðleg tæknifyrirtæki sem hafa mikið fjármagn og tugi þúsunda starfsmanna, geta því hreyft sig hratt og hafa haft mikil mótandi áhrif á notendahegðun.

„Þrátt fyrir stærð alþjóðlegra samkeppnisaðila getum við verið betri í mörgu út af nálægðinni við markaðinn og höfum ástríðu fyrir því að vera með betri upplýsingar um Ísland, Íslendinga og íslensk fyrirtæki sem byggir á þessari nálægð,“ segir Vilborg. „Við vitum t.d. hvar umhverfið breytist og höfum nú farið fjórar ferðir að mynda landið og samþætt myndirnar kortalausnunum okkar. Fyrsta ferðin var farin árið 2013 þegar Google myndaði einnig, og síðast mynduðum við nú í sumar. Við höfum líka verið í mikilli vinnu við að endurbæta kortin okkar og verða ný kort sett í loftið innan örfárra mánaða.“

N ánar er rætt við Vilborgu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .