Viðskiptahraðallinn Til sjávar og sveita fer fram í lok sumars. Þetta er í annað skiptið sem hraðallinn er haldinn en tíu fyrirtæki verða valin til þátttöku í tíu vikna dagskrá. Umsóknarfresti lýkur á morgun og í kjölfarið verða tekin viðtöl við valinn hóp umsækjenda. Þátttakendur verða tilkynntir 30. júní en hraðallinn hefst þann 31. ágúst og lýkur 6. nóvember.

Hraðallinn er ólíkur sambærilegum verkefnum að því leytinu til að lögð er áhersla á fyrirtæki sem eru í hátæknimatvælaiðnaði, nýjum lausnum í landbúnaði og haftengdum iðnaði. Einnig er horft til betri nýtingar hráefna og tæknilausna í verslun og þjónustu.

„Áherslan okkar í Sjávarklasanum hefur alltaf verið að efla nýsköpun í öllum haftengdum greinum, miklu meira en einungis í hefðbundna sjávarútveginum, heldur öllu sem við kemur hafinu,“ segir Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans.

Hann segir að hugmyndin hafi komið til eftir að hann hafði verið innan um 50 manna hóp af frumkvöðlum. Þór bað þá sem voru að starfa á sviði hafsins að rétta upp hönd en það gerði enginn.

„Þá fórum við að hugsa að það væri eitthvað að þjóðfélaginu, þar sem það væru gríðarleg tækifæri með allt þetta hafflæmi okkar en landhelgin er stærri en Frakkland.“

Þór segir þó að nú séu fullt af nýjum fyrirtækjum að koma fram á þessu sviði og að gríðarleg tækifæri séu enn til staðar. Hann segir að nokkur spennandi og skemmtileg fyrirtæki hafi tekið þátt í hraðlinum í fyrra, sem séu að fjölga starfsfólki og taka áhugaverð skref í framtíðina. Hann tekur dæmi um sprotafyrirtækið Feed the Viking sem hóf að markaðssetja harðfisk sem fiskræmur (e. fish jerky).

Nettó selur vörur þátttakenda

Bakhjarlar hraðalsins eru Matarauður Íslands, Landbúnaðarklasinn og Atvinnuvegaráðuneytið ásamt Nettó, sem bætist við í ár. Þór kveðst vera mjög ánægður með innkomu Nettó og annarra bakhjarla sem sýna áhuga og skilning á að þeir geta nýtt sér hraðalinn til að efla sína þjónusta.

„Nettó hefur mikinn áhuga á því að taka þessa frumkvöðla nær sér og kynna og selja vörur þeirra fyrir viðskiptavini sína. Það er mikið lán að hafa svona samstarfsaðila sem virkilega vilja taka þetta með okkur alla leið,“ segir Þór.

Aðstaða í Grósku hugmyndahúsi

Þátttakendur hraðalsins fá aðgang að sameiginlegri vinnuaðstöðu í Grósku hugmyndahúsi sem rís nú í Vatnsmýrinni. Þátttakendurnir hafa einnig aðgang að þjálfurum og verða í nánu sambandi við reynda frumkvöðla, fjárfesta og aðra sérfræðinga, sem veita þeim leiðsögn.

Þór segir að þrátt fyrir tíu vikna dagskrá þá hafa sum sprotafyrirtækin haldið samstarfi sínu við Sjávarklasann áfram eftir að hraðlinum lauk í fyrra.

„Stundum hefur mér þótt þessir hraðlar vera svolítið endasleppir. Þetta eru bara tíu vikur og svo er þeim hent út í raunveruleikann en hjá okkur er tækifæri til þess að hafa þetta fólk nær okkur.“

Icelandic Startups er framkvæmdaraðili hraðalsins og kveðst Þór vera geysilega ánægður með þeirra störf. „Þeirra sérhæfing er að taka inn þessa frumkvöðla og nota leiðbeinendur frá okkur til þess að hjálpa þátttakendum með fyrstu skrefin,“ segir Þór.

Nýstofnuð Sjávarakademía

Íslenski Sjávarklasinn setti á laggirnar Sjávarakademíuna fyrr í mánuðinum. Sjávarakademían býður upp á nám sem stendur yfir í eina önn og hefst í haust. Þar gefst nemendum kostur á að kynnast frumkvöðlastarfsemi sem tengist hafinu, læra um sjálfbærni og hvernig bæta megi umhverfi og afurðir hafsins. Aðalkennslan fer fram í Húsi sjávarklasans en einnig fer kennsla fram í haftengdum fyrirtækjum og stofnunum á Suðurnesjum.

„Þetta er eina námið sem er í miðju frumkvöðlastarfseminnar á Íslandi því þetta er kennt í Húsi Sjávarklasans þar sem fullt af frumkvöðlum eru starfandi.“

Námið er í eina önn (30 einingar) og getur verið metin til eininga í framhaldsskólum eða sem hluti af námsbraut í fisktækni. Sjávarakademían býður einnig upp á sambærilegt fjögurra vikna námskeið í sumar.

„Þetta hefur verið draumur okkar síðan við stofnuðum Sjávarklasann,“ segir Þór.

Nánar er rætt við Þór í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .