Vorið 2012 leit út fyrir að Brett O'Brien væri á góðri leið með að verða nýjasti tæknimilljarðamæringurinn í Bandaríkjunum. Hann var forstjóri, stjórnarformaður og stofnandi fyrirtækisins Viddy, sem gerði notendum kleyft að deila stuttum myndskeiðum á netinu. Facebook hafði þá nýlega keypt mynddeiliþjónustuna Instagram og önnur stórfyrirtæki í tæknigeiranum voru að líta í kringum sig í leit að svipaðri þjónustu.

Notendur Viddy voru alls þrjátíu milljón talsins á mánuði og Twitter bauð O'Brian 100 milljónir dala fyrir fyrirtækið. O'Brien var hins vegar með ákveðna Instagram-glýju í augunum og vildi meira. Hann hafnaði því tilboði Twitters og fékik þess í stað fjárfesta inn í fyrirtækið. Miðað við gengið sem þeir keyptu sig inn á var Viddy 370 milljóna dala virði. Þetta var hátindur Viddy og O'Brien.

Síðan þá hefur Facebook takmarkað aðgang að Viddy í gegnum sitt notendanet og eru notendur þjónustunnar nú aðeins um fimm milljónir í hverjum mánuði. Stjórn fyrirtækisins hefur fengið nóg og hefur sagt O'Brien upp sem forstjóra. Hann mun halda sæti sínu í stjórninni, en hann mun að öðru leyti ekki koma nærri stjórn fyrirtækisins sem hann stofnaði. Í frétt Business Insider segir að saga O'Brien og Viddy sé versta martröð hvers frumkvöðuls. Að hafna mjög góðu yfirtökutilboði vegna þess að þú telur þig eiga möguleika á enn meiri peningum og missa svo fyrirtækið í kjölfarið og sitja uppi með sárt ennið og tómar hendur.