Fjárfesting í nýsköpun á Íslandi er hlutfallslega miklu minni en almennt gerist annars staðar í Evrópu, en fjárfesting í nýsköpun getur verið heppilegur hluti af fjárfestingum lífeyrissjóða þótt fara verði varlega í slíkar fjárfestingar. Er þetta meðal þess sem kom fram á fundi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins um slíkar fjárfestingar lífeyrissjóðanna.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, fór í sínu máli yfir ávöxtun og áhættu af fjárfestingum í nýsköpun. Studdist hann við viðamikla bandaríska rannsókn á ávöxtun í nýsköpunarfjárfestingum á árunum 1960 til 1999. Þrátt fyrir að söguleg meðalávöxtun nýsköpunarsjóða sé ekki mikið betri en ávöxtun skráðra hlutabréfa var fylgni milli ávöxtunar þessara tveggja eignaflokka nær engin.

Sagði Gunnar að helsti kostur fjárfestingar í nýsköpun geti því verið sem áhættudreifing. Samkvæmt fræðunum gæti fjárfesting í nýsköpun upp á um 2%-9% af eignum lífeyrissjóðanna hækkað ávöxtun án þess að auka markaðsáhættu. Ekki ætti þó að ana út í slíkar fjárfestingar, heldur ættu Íslendingar að taka sér tíma til að vanda til verka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .