Háskóli Íslands og Oxymap ehf. gerðu nýverið með sér samning um rannsóknir á sviði súrefnismælinga og mun Oxymap veita Háskólanum styrk vegna stöðu sérfræðings við læknadeild.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Árni Þór Árnason, framkvæmdastjóri Oxymap og Guðmundur Þorgeirsson, forseti læknadeildar undirrituðu samninginn.

Viðstaddir voru Jón Atli Benediktsson og Einar Stefánsson, frumkvöðlar að Oxymap, Valdemar Olsen, fjármálastjóri Oxymap og Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sem hefur ásamt fleiri fjárfestum gengið til liðs við Oxymap.

Við undirritunina gat rektor þess að starf Oxymap væri glæsilegt dæmi um grunnrannsóknir og hagnýtingu þeirra, þverfræðilegt samstarf framúrskarandi vísindamanna í rafmagnsverkfræði og augnlæknisfræði, stúdenta og atvinnulífsins, og nýsköpun sem byggir á háskólastarfsemi segir í tilkynningu.

Frumkvöðlar að Oxymap eru Einar Stefánsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, og Jón Atli Benediktsson, prófessor við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Rannsóknir þeirra hafa verið til umfjöllunar víða um heim en þeir tveir hafa í félagi við aðra þróað súrefnismæli fyrir augnbotna sem getur tryggt meðferð við augnsjúkdómum fyrr en áður var kleift.

Tæknin nýtist við meðhöndlun á sykursýki, bláæðastíflum í sjónhimnu og gláku og metur einnig áhrif lyfja- og leysimeðferðar. Sprotafyrirtækið Oxymap var stofnað til þróa áfram lausnir sem tengjast þessum rannsóknum.