Nýsköpunarhádegi Klaks byrja að nýju í dag en um síðasta vetur voru þau 26 talsins. Þar mættu 60 frummælendur og töluðu um framtíð Íslands en hvert hádegi hefur þema sem tengist nýsköpun, atvinnusköpun og verðmætasköpun Íslendinga, segir í tilkynningu frá Klak. Frummælendur á fundinum í dag eru Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, og Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins. Þau munu ræða um Nýsköpunarhagkerfið. Fundurinn er haldinn á skrifstofun Klaks í Ofanleiti 2.

Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks, segir í tilkynningunni að það sé mikilvægt að ræða verðmætasköpun í íslensku samfélagi út frá nýsköpun fyrirtækja, nýjum fyrirtækjum og atvinnugreinum. „Orðið „nýsköpun“ hefur að einhverju leyti tapað merkingunni en það þýðir ekki að við hættum að ræða nýjar leiðir, nýja markaði, nýjar vörur og þjónustu, ný fyrirtæki og nýjar atvinnugreinar. Þvert á móti verðum við að ræða það vegna þess að það skiptir framtíð Íslands máli að okkur takist að auka verðmætasköpun á Íslandi," segir Eyþór.

Viðskiptablaðið og vb.is er samstarfsaðili Klaks ásamt Landsbankanum og Stjórnvísi.