Viðskiptahugmyndir sem snúa að sjálfbærri þróun í byggingariðnaði, prótíndufti úr íslensku skyri og innlendri freyðivínsframleiðslu urðu í þremur efstu sætunum í nýsköpunarhraðli fyrir konur sem Háskóli Íslands stóð að í samstarfi við bandaríska sendiráðið á Íslands og lauk formlega í gær. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Hraðalinn nefnist Academy for Woman Entrepreneurs (AWE) og er í boði víða um heim á vegum bandarískra stjórnvalda. Í fréttatilkynningunni segir að markmið hans sé að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Var þetta í fyrsta sinn sem hraðalinn er haldinn hér á landi en sendiráðið ku hafa leitað til Háskóla Íslands um samstarf um hann.

„Tuttugu og fimm konur voru valdar til þáttöku í hraðlinum sem hófst í upphafi árs og stóð yfir í tíu vikur. Allir þátttakakendur luku Dreambuilder, vefnámskeiði á vegum Arizona State háskólans í Bandaríkjunum, og tóku jafnframt þátt í vinnulotum sem Háskóli Íslands stóð fyrir í samvinnu við fjölda frumkvöðla og sérfræðinga innan og utan Háskólans, þ.m.t. frá Félagi kvenna í atvinnulífinu. Þær Fida Abu Libdeh, forstjóri og annar stofnenda GeoSilica, og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, vöru- og markaðsstjóri Florealis, voru enn fremur mentorar þátttakenda í hraðlinum,“ segir í fréttatilkynningunni.

Útskrift og verðlaunaafhending fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í gær að viðstöddum Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur atvinnu- og nýsköpunarráðherra, Harry Kamian, starfandi sendiherra Bandaríkjanna og Chargé d´Affaires í bandaríska sendiráðinu á Íslandi, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands og dómnefndum hraðalsins. Þar voru þrjár bestu viðskiptaáætlanirnar verðlaunaðar.

Verðlaunahafar voru eftirfarandi:

  • Fyrstu verðlaun að upphæð 400 þúsund hlaut Svala Jónsdóttir og teymi hennar fyrir viðskiptahugmyndina Visttorg en því er ætlað er að styðja við sjálfbæra þróun í byggingariðnaði hér á landi. Fyrsta skrefið er að þróa gagnabanka fyrir fagaðila og hinn almenna húsbyggjanda sem flýtir fyrir ferli vistvænnna bygginga og stuðlar að bættum verkferlum. Hugmyndin er einnig að þróa verkfæri sem kallast Vistbók og er ætlað að einfalda ferli byggingarverkefna í umhverfisvottun.
  • Í öðru sæti varð Aníta Þórunn Þráinsdóttir og teymi með viðskiptahugmyndina Frosta Skyr sem hlaut 200 þúsund krónur í verðlaunafé. Hún snýst um framleiðslu á hágæða íslensku prótíndufti sem samanstendur af frostþurrkuðum skyrflögum og ofurfæðunni blárri spírulínu. Duftinu er hægt að blanda út í holla þeytinga en einnig við vatn þannig að úr verður hefðbundið skyr. Þess má geta að hugmyndin varð í þriðja sæti í bæði frumkvöðlakeppninni Gullegginu og Ecotrophelia, evrópskri samkeppni háskólanema um vistvæna nýsköpun matvæla, á síðasta ári.
  • Þriðju verðlaun að upphæð 100 þúsund krónur hlaut Margrét Polly Hansen með viðskiptahugmyndina Vínland - Vínekran þar sem ætlunin er að rækta vínvið og  framleiða íslenskt freyðivín en jafnframt bjóða upp á upplifun því tengdu.
  • Sérstök verðlaun voru veitt fyrir bestu lyftukynninguna en þar er átt við afar stutta kynningu á verkefni sem í þessu tilviki fór fram á myndbandsformi. Þau verðlaun hlaut Jamie Lee fyrir kynningu sína á fyrirtækinu Fine Foods Íslandica. Markmið þess er að draga úr matarsóun með því að fullnýta sjávarfang og nýta þang til að búa til þurrkaðar gæðavörur til matargerðar. Fyrsta vara fyrirtækisins í framleiðslu er kraftur úr bláskel og þangi frá Vestfjörðum þar sem lögð er áhersla á að ná fram hinu mikilvæga umami-bragði í vörunni.

Verðlaunahafar í hraðlinum Academy for Woman Entrepreneurs (AWE) sem haldinn var á vegum bandaríska sendiráðsins og Háskóla Íslands.
Verðlaunahafar í hraðlinum Academy for Woman Entrepreneurs (AWE) sem haldinn var á vegum bandaríska sendiráðsins og Háskóla Íslands.
© Kristinn Ingvarsson (Kristinn Ingvarsson)

Verðlaunahafar AWE hraðalsins