Verkefni á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru meðal þeirra sem ekki hljóta svonefdna IPA-styrki Evrópusambandsins. Eins og áður hefur verið greint frá þá var fallið frá IPA-styrkjum til verkefna með óundirritaða samninga vegna hlés á aðildarviðræðum við ESB.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands hlaut samþykki fyrir tveimur verkefnum sem sótt var um til Evrópusambandsins undir formerkjum IPA af því er fram kemur á vefsíðu þeirra. Bæði verkefnin snéru að nýsköpun og framþróun íslensks atvinnulífs.

„Verkefnin eru metnaðarfullt framlag Nýsköpunarmiðstöðvar til að styrkja alþjóðlega samkeppnisstöðu Íslands með nýsköpunarstarfi í öllum landshlutum. Annað verkefni Nýsköpunarmiðstöðvar, CRISTAL eða „Creative Regions for Innovation, Skills, Technology, Accessibility and Learning“ hefur það megin markmið að koma á samstarfi í öllum landshlutum til að styrkja menntun í verk- tækni- og raungreinum og nýsköpun í skólastarfi. Hitt verkefnið, SuFI, eða “Sustainable Fuels for Iceland” snýst um kortlagningu auðlinda á Íslandi sem hægt væri að nýta til framleiðslu á vistvænu eldsneyti til notkunar á bifreiðar skip og flugvélar,“ segir í tilkynningu Nýsköpunarmiðstöðvar.

Nýsköpunarmiðstöð segir það vonbrigði að samningarnir verði ekki undirritaðir. Ákvörðunin stöðvar framkvæmd verkefnanna og þeirrar mikilvægu sóknar í þágu aukinnar samkeppnishæfni og öflugara atvinnulífs sem þau fela í sér.