Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýi Glitnir undirrituðu í dag samning um rekstur nýs viðskiptaseturs í húsnæði Nýja Glitnis í Lækjargötu.

Í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands kemur fram að Nýi Glitnir leggur til tvær hæðir í húsnæði bankans í Lækjargötu 12 en rekstur setursins verður í höndum Impru á  Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Á viðskiptasetrinu í Lækjargötu verður skrifstofuaðstaða fyrir 30 manns.

„Undanfarnar vikur hefur orðið gífurleg vakning um mikilvægi nýsköpunar og er samningur Nýja Glitnis og Nýsköpunarmiðstöðvar liður í aðgerðum miðstöðvarinnar til að styðja við sprotafyrirtæki,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að í nýja viðskiptasetrinu í Lækjargötu munu einstaklingar og hópar fá aðstöðu til að vinna að frumkvöðlahugmyndum gegn sanngjarnri leigu undir umsjón sérfræðinga Impru á Nýsköpunarmiðstöð. Hægt er að sækja um aðstöðu á vef Nýsköpunarmiðstöðvar, www.nmi.is .

Áður hefur Nýsköpunarmiðstöð Íslands opnað Torgið - viðskiptasetur í samvinnu við Landsbankann í Pósthússtræti, sem hóf starfsemi í byrjun desember. Auk þess rekur Impra á Nýsköpunarmiðstöð frumkvöðlasetur á Keldnaholti í Reykjavík, á Höfn í Hornafirði og í Eldey á Keilissvæðinu.