Nýsköpunarmót Álklasans verður haldið í dag og er það opið öllum. Viðburðurinn, sem stendur frá klukkan 14 til 16, fer fram í stofu M105 í Háskólanum í Reykjavík. Hægt verður að fylgjast með beinni útsendingu hér .

Guðbjörg Óskarsdóttir, klasastjóra Álklasans, segir að Nýsköpunarmótið hafi í fyrsta skiptið verið haldið í fyrra.

„Það tókst gríðarlega vel og yfir hundrað manns mættu," segir hún. „Þetta væri bæði fólk frá háskóla- og rannsóknarsamfélaginu og fyrirtækjum í atvinnulífinu. Við vorum mjög ánægð hvernig til tókst. Í fyrra var mótið haldið í Háskóla Íslands en núna verður það í Háskólanum í Reykjavík. Hugmyndin er sem sagt að halda þetta til skiptis í þessum tveimur skólum."

Að sögn Guðbjargar hefur viðburður sem þessi mikla þýðingu.

„Þarna koma tveir geirar saman, háskólasamfélagið og iðnaðurinn. Fyrir vikið verður til mjög mikilvægt samtal, sem ég held að sé undirstaðan fyrir nýsköpun, þróun og framfarir.

Í fyrra opnuðum við líka hugmyndagátt, þar sem iðnaðurinn eða raun hver sem er, getur komið með hugmyndir að verkefnum fyrir nemendur í háskólum. Í kjölfarið höfum við fundið fyrir auknum áhuga hjá nemendum að fara í verkefni sem tengjast áliðnaðinum og ég myndi jafnvel segja að það hafi orðið ákveðin vitundarvakning hjá þeim. Hugmyndagáttin er fyrst og fremst hugsuð fyrir nemendur sem eru að leita sér að verkefnum, hvort sem það eru lokaverkefni í þeirra fagi eða önnur verkefni sem tengjast náminu."

Á Nýsköpunarmótinu í dag verður fjallað um nýsköpun, rannsóknir og þróun í áliðnaði hér á landi og koma frummælendur úr fræðasamfélaginu og atvinnulífinu. Fundarstjóri verður Bryndís Skúladóttir sviðsstjóri framleiðslusviðs Samtaka iðnaðarins .

Sex fyrirlesarar flytja framsöguerindi en það eru:

  • Guðrún Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík, sen flytur opnunarávarp.
  • Houshang Darvishi Alamdari , framkvæmdastjóri REGAL rannsóknarmiðstöðvar áliðnaðarins í Quebec í Kanada.
  • Carl Duchesne , prófessor við Laval-háskóla í Quebec .
  • Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.
  • Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
  • Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri fjárfestingar- og framleiðsluþróunar hjá Alcoa , flytur erindi um  álver framtíðarinnar hér á landi, þ.e. tækifæri til frekari nýsköpunar í álframleiðslu, svo sem sjálfvirkni.

Örkynningar á ýmsum verkefnum

Að loknum framsöguerindum verða örkynningar frá forsvarsmönnum nokkurra fyrirtækja:

  • Agnar Sveinsson frá Eflu ræðir um sjálfvirka ástandsgreiningu á deiglum. Það er þróun í átt til aukinnar sjálfvirkni og má segja að það sé liður í fjórðu iðnbyltingunni. Tengist það hitamyndavélaverkefni sem þróað var fyrir nokkrum árum í álverinu í Straumsvík, þar sem fylgst var með kerum með sjálfvirkum róbótum.
  • Teitur Gunnarsson frá Mannviti er með yfirlit yfir CO2 strauma frá iðnaði og jarðvarmavirkjunum á Íslandi. Þróunin hefur verið í þá átt að líta á alla strauma frá iðnaði sem hráefni og þarna er verið að kortleggja CO2 strauma, og hvernig mögulega megi nýta þá í framtíðinni.
  • Orku- og umhverfisvæn álframleiðsla“ er yfirskrift erindis Sindra Frostasonar hjá Arctus Metals Ltd , en Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Arctus Metal ltd . hafa unnið að rannsóknum á nýrri rafgreiningaruppsetningu með óvirkum rafskautum sem myndu leysa af hólmi kolefnisrafskaut. Þetta hefur um árabil verið viðfangsefni vísindamanna um allan heim, enda hefði það mikla þýðingu ef tækist að framleiða óvirk rafskaut, þar sem álver myndu þá framleiða súrefni í stað CO2 .
  • Smári Jósafatsson hjá Ekkó kynnir til sögunnar umhverfisvæna toghlera. Þarna fer saman ný hönnun og nýtt efnisval, með því að framleiða þá úr áli verða þeir léttari.  Aukin notkun áls á fiskiskipum léttir á farminum sem í kjölfarið dregur úr eldsneytisnotkun og þar með losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Petre Manolescu frá Alcoa fjallar um áhrif eiginleika forskauta á kerrekstur.
  • „Frumgerðarsmíði fyrir alla“ er yfirskrift erindis Ásþórs Tryggva Steinþórssonar hjá Frumgerðinni. Hann segir frá nýrri aðstöðu sem verið var að opna á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, verkstæði sem opið er almenningi og frumkvöðlum. Frumgerðin er hugsuð fyrir alla þá sem hafa hugmynd að nýrri vélbúnaðarlausn og vilja láta þá hugmynd verða að veruleika.

Hvatningarverðlaun

Á Nýsköpunarmótinu nú verða í  fyrsta sinn veitt hvatningarverðlaun Álklasans. Verðlaunin hljóta fjórir háskólanemendur sem nú vinna að verkefnum tengdum áliðnaðinum. Þessir nemendur verða með örkynningu á sínum verkefnum:

  • Matthías Hjartarson, nemi við Háskólann í Reykjavík, ræðir myndgreiningu til að greina skautgaffla.
  • Regína Þórðardóttir, nemandi við Háskóla Íslands, fjallar um vinnu sína við kortlagningu framleiðsluúrgangs sem fellur til innan áliðnaðar.
  • Kevin Dillmann, nemi við Háskóla Íslands, fjallar um vinnu sína við að lífsferilsgreina ál.
  • Leó Blær Haraldsson, nemandi við Háskólann í Reykjavík,  fjallar um fýsileikagreiningu á nýtingu á varmanum, sem myndast við álframleiðslu til hitaveitu. Slíkt getur verið hagkvæmt á köldum svæðum, svo sem á Reyðarfirði þar sem Fjarðaál er staðsett.