Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur samþykkt að kaupa hlutafé í fyrirtækinu IceMedix ehf. Fjárfestingin verður í nokkrum áföngum og ef áætlanir ganga eftir mun eignarhlutur sjóðsins verða 27%. Markmið Nýsköpunarsjóðs og annarra hluthafa er að tryggja undirstöður og byggja upp fyrirtæki á heilbrigðissviði sem sérhæfir sig í framleiðslu upplýsinga- og hjálpartækja til forvarnastarfa, sjúkdómsgreininga og lækninga.

Fyrirtækið IceMedix þróar, prófar og selur hugbúnaðarlausnir þar sem gervigreind er beitt til að auðvelda heilbrigðisstarfsfólki aðgang að bestu fáanlegri læknisfræðilegri þekkingu á hverjum tíma. Slíkar lausnir munu aðstoða t.d. lækna við greiningu, meðferð og eftirlit flókinna sjúkdóma eða sjúkdómsmynda. Búnaðurinn á að auka hagkvæmni og áreiðanleika þeirra mikilvægu ákvarðanna sem heilbrigðisstarfsfólk þarf að taka á degi hverjum. Talið er að búnaðurinn muni þannig spara læknum og sjúklingum dýrmætan tíma, leiða til markvissari notkunar rannsókna og viðeigandi meðferðarúrræða með verulegum sparnaði fyrir heilbrigðiskerfið. Fljótlega fer á markað búnaður til að auðvelda forvarnir, greiningu, eftirlit og meðferð á beinþynningu. Þróun á búnaði til greiningar á sjálfsofnæmissjúkdómum er langt á veg kominn. Starfsemi félagsins byggir á áralangri reynslu og þróun og stöðugri eftirfylgni aðstandenda sem eru læknarnir Björn Rúnar Lúðvíksson og Björn Guðbjörnsson auk rannsókna og mikillar gagnavinnslu þar sem gervigreind er notuð. Stofnendur og forsprakkar IceMedix mynda sterkt teymi þar sem sérfræðiþekking lækna og háþróðuð gervigreind fara saman.

Helga Valfells, framkvæmdarstjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins segir í tilkynningu ánægjulegt að fá tækifæri til að fjárfesta í fyrirtæki eins og IceMedix. „Við höfum mikla trú á fyrirtækinu og verkefnum þess. Þarna er saman komin gríðarleg þekking og reynsla hæfustu manna við greiningu á sjúkdómum og meðferðum auk þekkingar á gagnavinnslu úr stórum gagnabönkum. Það er von okkar hjá Nýsköpunarsjóði að þetta verði upphafið að farsælu samstarfi við IceMedix og að fjárfesting Nýsköpunarsjóðs í fyrirtækinu hjálpi til við að skapa verðmæt störf, afla gjaldeyris og skili góðri ávöxtun til sjóðsins, fyrir nú utan mikla gagnsemi fyrir lækna og sjúklinga og mögulegan sparnað í heilbrigðiskerfi.“

Björn R. Lúðvíksson, stjórnarformaður IceMedix segir í tilkynningu: “Með samstarfi okkar við Nýsköpunarsjóð hefur IceMedix tekið stórt skref í þá átt að koma vörum fyrirtækisins á markað. Með aðkomu sjóðsins að fyrirtækinu hefur verið rennt traustum stoðum undir uppbyggingu þess samhliða því að auka trúverðugleika og gæði þjónustunnar og þess búnaðar sem brátt fer í almenna sölu.”

IceMedix var stofnað 2008 af Dr. Med. Birni Rúnari Lúðvíkssyni, Dr. Med. Birni Guðbjörnssyni og Per Schmidt eiganda Intellix. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og gerð hugbúnaðarlausna þar sem gervigreind er beitt til að fanga bestu fáanlegu þekkingu á sviði ofnæmis-, sjálfsofnæmis-, gigtar- og beinþynningarsjúkdóma. Notkun slíkra lausna erlendis (clinical decission support systems) hafa aukið verulega á skilvirkni og gæði heilbrigðisþjónustunnar með verulegum sparnaði fyrir notendur og heilbrigðisyfirvöld. Hönnun og þróun búnaðar á sviði beinþynningar er nú kominn á lokastig og er markaðssetning hans hafin. Hefur forkönnun hans verið m.a. gerð í samstarfi við lækna Heilsugæslunnar í Garðabæ. Sambærilegu búnaður á sviði sjálfsofnæmis- og gigtarsjúkdóma er nú í þróun innan fyrirtækisins. Um Nýsköpunarsjóð Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (www.nsa.is) er áhættufjárfestir sem tekur virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með því að fjárfesta í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Nýsköpunarsjóður er óháður fjárfestingarsjóður í eigu íslenska ríkisins.