Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins ásamt sprotafjárfestum, þar á meðal fjárfestingafélaginu Investa hafa gert samning um kaup á hlutafé í fyrirtækinu Mint Solutions ehf., að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Markmið fyrirtækisins er að vera leiðandi í gerð lausna til lyfjaeftirlits á sjúkrastofnunum og hefja markaðssetningu erlendis.

Úr tilkynningu:

Fyrirtækið Mint Solutions hefur hannað MedEye lausnina sem auðveldar sjúkrastofnunum að hafa eftirlit með lyfjagjöfum. Mistök við lyfjagjöf eru alvarlegt vandamál sem allar sjúkrastofnanir glíma við og kostar fjölda mannslífa á ári hverju. MedEye skannar lyf myndrænt og greinir lyfjategundir til að koma í veg fyrir mistök. MedEye eykur öryggi við lyfjagjöf verulega og er einstakt í sinni röð. Sótt hefur verið um einkaleyfi á lausninni.

Stofnendur Mint Solutions hafa umfangsmikla reynslu af þróun og markaðssetningu á hugbúnaði fyrir erlendar heilbrigðisstofnanir. Þau Ívar Helgason, Gauti Reynisson og María Rúnarsdóttir mynda sterkt teymi þar sem tækni- markaðs- og rekstrarþekking fer saman.

Helga Valfells, framkvæmdarstjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins: „Við hjá Nýsköpunarsjóði erum mjög ánægð með fjárfestinguna í Mint Solutions og höfum trú á því að stofnendum félagsins takist að koma þessari lausn inn á markað í Evrópu og Bandaríkjunum. Við fjárfestum í Mint solutions þar sem við sáum gott teymi sem hafði bæði góða tækniþekkingu og mikla markaðsreynslu. Varan er tímabær og við hjá NSA erum sannfærð um að fjárfestingar í íslenskri heilbrigðistækni geta verið mjög arðbærar ef rétt er haldið á spilunum.“

Hilmar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Investa: „MedEye lausnin sem stofnendur Mint Solutions hafa þróað er einstök að mörgu leyti og vel til þess fallinn að ná árangri á alþjóðamarkaði. MedEye er að leysa vel skilgreint vandamál á mjög stórum markaði og félagið hefur nú þegar sótt um einkaleyfi á þeirri aðferðafræði og tækni sem þróuð hefur verið. Við hlökkum til að vinna með félaginu og aðstoða það við að koma MedEye lausninni á markað.“

Gauti Þór Reynisson, framkvæmdastjóri Mint Solutions ehf.: „Við hjá Mint Solutions ehf. höfum unnið að þróun MedEye lausnarinnar undanfarin ár og má segja að ævintýrið hafi byrjað þegar við vorum öll við nám í MIT. Móttökur sjúkrahúsa í Evrópu hafa verið frábærar enda er mikil þörf á lausn af þessu tagi og flest sjúkrahús að skipuleggja verkefni til að bæta lyfjaöryggi. Þessi  fjárfesting gerir okkur kleift að ljúka þróun MedEye vörunnar og að hefja markaðssetningu. Við erum nú að leita að framúrskarandi hugbúnaðarmönnum í teymið okkar og reiknum með að fjölga starfsmönnum á þessu ári. Við erum afar ánægð með að fjárfestarnir hafi séð tækifæri í þessu verkefni og hlökkum til samstarfsins. Í fjárfestahópnum er reynslumikið fólk sem á eftir að reynast okkur vel á komandi mánuðum.“