Hannes Frímann segir að það sé erfitt að fjármagna sjóði sem ætlað er að fjármagna nýsköpunarverkefni. Auður Capital og söngkonan Björk Guðmundsdóttir tilkynntu um stofnun slíks sjóðs í árslok árið 2008. Hannes Frímann segir að hugmyndin hafi verið lögð til hliðar og ekki sé útlit fyrir að sjóðurinn verði að veruleika.

„Á þeim tíma gekk mjög erfiðlega að safna fjármagni í sjóði sem einbeita sér að nýsköpun. Slíkt er enn erfitt í dag,“ segir Hannes Frímann. Hann segir að slíkir sjóðir krefjist mikillar þekkingar og þolinmæði og mikillar vinnu.

Hannes Frímann segist hins vegar telja fulla þörf á nýsköpunarsjóðum. „Það er nauðsynlegt fyrir íslenskt atvinnulíf að efla og örva nýsköpun. Nýsköpunarsjóðir geta gegnt þar mjög mikilvægu hlutverki og full ástæða er til að huga að því fyrir íslenskt samfélag, hvernig hægt er að koma slíkum sjóðum á laggirnar. Ég tel það af hinu góða fyrir íslenskt atvinnulíf að slíkir sjóðir verði settir á laggirnar,“ segir hann.

Ítarlegt viðtal er við Hannes í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .