Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tilkynnti nýlega um fjárfestingu í tveimur sprotafyrirtækjum.

Um er að ræða hugbúnaðarfyrirtækið Dohop og framleiðslufyrirtækið Valka ehf.

Þetta kemur fram á heimasíðu sjóðsins.

Sjóðurinn fjárfesti 78 milljónum króna í Dohop en fyrirtækið undirbýr nú alþjóðlegt kynningarátak á flugleitarvefnum Dohop.com.

Vefurinn býður ferðamönnum upp á flugleit sem nær til fleiri en 600 flugfélaga um allan heim. Þar geta ferðalangar m.a. fundið ódýra tengiflugsmöguleika með ýmsum lággjaldaflugfélögum.

Dohop var stofnað árið 2004 af Frosta Sigurjónssyni, núverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Nýsköpunarsjóður keypti 20% hluti í Völku ehf. sem mun styrkja fyrirtækið í alþjóðlegri markaðssetningu á vörum þess.

Um er að ræða vélar fyrir fiskvinnslu, aðallega á sviði flokkunar og pökkunar en einnig hugbúnaður, vogir og tæki til merkingar.

Á heimasíðu Nýsköpunarsjóðsins kemur fram að Valka hafi nýlega undirritað dreifingarsamninga við fyrirtækið í Noregi og í Færeyjum vegna dreifingar og sölu þar.

Valka ehf. var stofnað árið 2003 af Helga Hjálmarssyni, núverandi framkvæmdastjóra.