Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur undirritað samning um kaup á 25% hlut í sprotafyrirtækinu Videntifier Technologies ehf.  Markmið eigenda félagsins er að byggja Videntifier Technologies upp sem öflugt íslensk hátæknifyrirtæki, leiðandi á sínu sérsviði á alþjóðavísu.

Vara félagsins, Videntifier Forensic, getur á alsjálfvirkan hátt borið kennsl á myndefni á tölvum og þannig aðstoðað við að uppræta barnaklám og annað ólöglegt myndefni. Kerfið eykur afköst lögreglunnar til muna við greiningu myndefnis. Tæknin á bak við þjónustuna er á heimsmælikvarða og byggir á rannsóknarvinnu við Háskólann í Reykjavík og við rannsóknarstofnunina IRISA í Frakklandi.

Félagið markaðssetur lausnina til lögregluembætta um allan heim, og er nú að byggja sér alþjóðlegt sölunet.

„Við erum mjög ánægð með fjárfestinguna í Videntifier. Við höfum mikla trú á fyrirtækinu og þeim vaxtarmöguleikum sem fylgja þessari fjárfestingu.  Fyrirtækið er stofnað af öflugum hópi með skýra framtíðarsýn, og Háskólanum í Reykjavík. Við fögnum því  þegar háskólarannsóknir leggja grunninn að hagnýtri vöru, sem er notuð til að byggja upp gjaldeyrisskapandi fyrirtæki eins og Videntifier . Fyrir okkur sem fjárfesta er jafnframt mikill kostur að Videntifier hefur þegar hafið viðræður við alþjóðlega samstarfsaðila sem staðfestir vaxtamöguleika fyrirtækisins erlendis," segir Helga Valfells, framkvæmdarstjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, í tilkynningu.

Herwig Lejsek, framkvæmdastjóri Videntifier Technologies segir að kerfi félagsins sé nú til reynslu hjá lögreglunni í Danmörku og á Möltu. „Fjárfesting NSA mun hjálpa okkur mikið við markaðsetninguna á Videntifier Forensic erlendis, til að styðja dreifingaaðila okkar, og í kynningu á þjónustunni á tækniráðstefnum fyrir lögreglu. Kerfið er núna til reynslu hjá lögreglunni í Danmörku og á Möltu og verður afhent til hryðjuverkadeildar í bresku lögreglunni í janúar 2011. Viðræður við fleiri eru í gangi. Samhliða þessu liggur á að stækka kerfið og að þróa tæknihluta lausnarinnar áfram, og fjármagnið mun líka nýtast okkur vel þar.”

Um Videntifier Technologies ehf.

Videntifier Technologies ehf. er íslenskt hátæknifyrirtæki, sem hefur þróað hugbúnað í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, sem getur sjálfkrafa borið kennsl á mynd- og videoefni.  Félagið hefur 6 starfsmenn í dag og mun stækka á komandi mánuðum.

Um Nýsköpunarsjóð

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins ( www.nsa.is ) er áhættufjárfestir sem tekur virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með því að fjárfesta í vænlegum nýsköpunar-  og sprotafyrirtækjum. Nýsköpunarsjóður er óháður fjárfestingarsjóður í eigu íslenska ríkisins.