Nýsköpunarsjóður hefur keypt hlutafé í Akthelia, Biopharmaceuticals ehf. Akthelia ehf. er sprotafyrirtæki sem byggir á niðurstöðum rannsókna við Háskóla Íslands og Karolinska Institutet í Stokkhólmi. Félagið vinnur að þróun lyfja gegn bakteríusýkingum.

Lyf þessi verka á annan hátt en hefðbundin sýklalyf og yrði því um að ræða nýja meðferð gegn sýkingum. Lyfin gætu m. a. reynst gagnleg gegn sýklastofnum sem eru ónæmir fyrir algengum sýklalyfjum.

Á frumuþekjum líkamans eru bakteríudrepandi peptíð sem mynda fyrstu vörn líkamans gegn sýkingum. Margar bakteríur og örverur geta komist fram hjá þessari vörn með því að slökkva á framleiðslu peptíðanna og þannig valdið alvarlegum sýkingum. Vísindamenn Akthelíu hafa fundið efnasambönd sem kveikja aftur á framleiðslu peptíðanna. Þannig má koma í veg fyrir eða lækna sýkingar vegna baktería eða örvera. Fyrirtækið vinnur að því að þróa sýklalyf úr þessum efnasamböndum.

Íslenskir frumkvöðlar fyrirtækisins eru prófessorarnir Guðmundur Hrafn Guðmundsson og Eiríkur Steingrímsson . Akthelia ehf. hét áður Biotica Pharma eða B. P. lífefni ehf.