Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur keypt 35% hlut í lækningavörufyrirtækinu Kerecis og mun jafnframt veita fyrirtækinu lán með breytirétti.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu en fjárfestingasamningurinn var undirritaður í síðustu viku. Fjárfestingin verður í nokkrum áföngum næstu 12 mánuði og eru áfangagreiðslur háðar framgangi þróunarverkefna Kerecis.

Kerecis ehf. fæst við rannsóknir, vöruþróun og framleiðslu á lækningavörum unnum úr fiskipróteinum. Vörur fyrirtækisins eru til notkunar á sjúkrahúsum til meðhöndlunar á vefjasköðum. Vörur og tækni fyrirtækisins eru á þróunarstigi og er skráning á einkaleyfum hafin til að verja tækni félagsins.

Fram kemur í tilkynningunni að starfsmenn og stofnendur Kerecis hafa áralanga reynslu í þróun á lækningavörum og klínískri þróunar– og prófunarvinnu.

„Markaður fyrir lækningavörur („medical devices“) á heimsvísu er geysistór og hafa nokkrir íslenskir aðilar haslað sér völl á þessum markaði og má þar nefna Össur hf, Mentis Cura, Nox Medical, Oxymap, Kine og fyrirtækið Primex,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að Kerecis mun einbeita sér að vöruþróun fyrir þann hluta lækningavörumarkaðarins sem snýr að meðhöndlun á sköðuðum vef („tissue engineering“).

„Tækni Kerecis byggir á hagnýtingu á próteinum úr fiski til meðhöndlunar á sköðuðum vef,“ segir Dr. Baldur Tumi Baldursson, læknir, meðstofnandi og yfirmaður lækningasviðs Kerecis í tilkynningunni.

„Frumathuganir félagsins benda til þess að tæknin henti mjög vel til meðhöndlunar á vefjaskemmdum í mönnum og með aðkomu Nýsköpunarsjóðs komum við til með að geta hleypt af stokkunum klínískum prófunum á vörum okkar strax í upphafi árs 2010.“

Finnbogi Jónsson, framkvæmdarstjóri, Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins segir ánægjulegt að fá tækifæri til að fjárfesta í fyrirtæki eins og Kerecis.

„Við höfum mikla trú á fyrirtækinu. Þarna koma saman reyndir stjórnendur og góðir vísindamenn sem sjá markaðstækifæri í fyrir lækningarvöru byggða á íslenskri þekkingu og íslensku hráefni,“ segir Finnbogi í tilkynningunni.

„Það er okkar von að þetta verði upphafið að farsælu samstarfi við Kerecis og að fjárfesting Nýsköpunarsjóðs í fyrirtækinu hjálpi til við að skapa verðmæt störf, afla gjaldeyris og skili góðri ávöxtun til sjóðsins.“