Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og sprotafyrirtækið Gogogic ehf. hafa gengið frá samningum um fjármögnun sem nemur 48 milljónum króna. Gogogic ehf. var stofnað í apríl árið 2006 með tvo starfsmenn innanborðs. Fyrirtækið hefur vaxið hratt og nú starfa hjá því 15 manns.

Í tilkyningu frá félaginu kemur fram að Gogogic ehf sérhæfir sig í frumlegri leikjahönnun, gerð smærri tölvuleikja og framleiðslu margmiðlunarefnis fyrir vefinn. Einnig sinnir fyrirtækið hugmyndasmíði og markaðsmálum fyrir viðskiptavini sína.

Nýlega gaf fyrirtækið út tölvuleikinn Symbol6 fyrir iPhone og iPod Touch og hlaut fyrir hann tilnefningu til Nordic Game verðlauna í flokknum Best Nordic Talent. Verðlaunafhendingin fer fram í Malmö í Svíþjóð þann 19. maí næstkomandi. Gogogic ehf vinnur nú að þróun fjölspilunar leiksins Vikings of Thule, sem hlaut styrk frá Nordic Game á síðasta ári. Þá var Gogogic tilnefnt til Vaxtarsprotans 2009.

„Það er mikill áfangi í starfi félagsins að fá Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins að borðinu. Með þeirra innkomu fylgir bæði fjármagn og reynsla en hvort tveggja mun nýtast félaginu óspart á komandi mánuðum. Félagið er í sókn og mun nýta tækifærið til frekari vaxtar, þróunar og markaðssetningar“ segir Jónas Björgvin Antonsson, framkvæmdastjóri Gogogic ehf. í tilkyningu.