Nýsköpunarvikan mun eiga sér stað í fyrsta sinn á Íslandi dagana 30. september til 7. október. Þar á dagskrá er meðal annars pallborðsumræður og lausnarmót ásamt því að frumkvöðlum og fyrirtækjum gefst tækifæri að kynna hina ýmsu starfsemi. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Markmið vikunnar er þríþætt. Í fyrsta lagi, að vekja athygli á nýsköpun sem á sér stað hjá stærri fyrirtækjum hér á landi. Í öðru lagi, að koma á samtali milli frumkvöðla, sprotafyrirtækja og almennings. Í þriðja lagi er framtíðarsýnin að Nýsköpunarvikan skapi sér sess meðal erlendra fjárfesta sem vilja kynnast nýsköpun á Íslandi.

„Við erum mjög spennt að kynna hátíðina í ár. Í árferði sem þessu er mikilvægt að ýta undir nýsköpun; með skapandi hugsun getum við unnið að því að lyfta okkur hraðar úr þeim efnahagsþrengingum sem við búum nú við vegna COVID-19. Nýsköpunarvikan er einstakt tækifæri fyrir fyrirtæki að miðla því frábæra skapandi starfi sem hér er unnið, auka sýnileika og undirstrika mikilvægi nýsköpunar. Við hvetjum því frumkvöðla og fyrirtæki til að taka þátt í Nýsköpunarvikunni og vinna að því að miðla íslensku hugviti,“ er haft eftir Eddu Konráðsdóttur sem er ein af skipuleggjendum.

Skipuleggjendur hátíðarinnar óska nú eftir áhugasömum frumkvöðlum og fyrirtækjum sem vilja standa að viðburðum og taka þátt í þessari spennandi hátíð nýsköpunar.

Nánar er hægt að lesa um atburðinn á heimasíðu þeirra.