Öll félögin sem skráð voru í Kauphöllina á síðasta ári hækkuðu talsvert á fyrstu dögum eftir skráningu, sér í lagi Avion Group og Exista, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

?Á síðasta ári voru þrjú ný félög skráð á íslenska hlutabréfamarkaðinn auk Teymis og 365 hf sem skráð voru á markað í kjölfar þess að Dagsbrún var skipt í þrennt; 365, Teymi og Hands Holding,? segir greiningardeildin.

?Avion Group, nú Hf. Eimskipafélag Ísland, var skráð á markað þann 20. janúar 2006 og var útboðsgengið 38,3 krónur á hlut. Hlutabréf félagsins hækkuðu mikið á fyrsta viðskiptadegi og var lokagengi dagsins 45,4 krónur á hlut sem samsvarar 18,5% hækkun. Frá þeim tíma lækkuðu hlutabréfin hins vegar og í árslok var gengi bréfa félagsins 32,5 krónur á hlut sem er 15,1% lækkun frá skráningu og 28,4% lækkun frá hæsta dagslokagengi.

Exista var skráð á markað þann 15. september 2006 og var útboðsgengið 21,5 krónur á hlut. Í lok fyrsta viðskiptadags höfðu bréf Exista hækkað um 5,1% en hæst var dagslokagengi félagsins 23,8 krónur á hlut þann 20. september, sem samsvarar 10,7% hækkun frá útboðsgengi. Í árslok var gengi félagsins 22,5 krónur á hlut og hækkaði gengi bréfa Exista því um 4,7% frá útboðsgengi.

Síðasta félagið sem var skráð á markað á árinu 2006 var Icelandair Group Holding (nú Icelandair Group). Félagið var skráð á markað þann 14. desember og var útboðsgengi félagsins 27 krónur á hlut. Hæsta dagslokagengi var 27,8 krónur á hlut í lok annars viðskiptadags með bréf félagsins. Í árslok var gengi bréfa Icelandair Group Holding 27,6 krónur á hlut sem samsvarar 2,2% hækkun frá skráningu,? segir greiningardeild Landsbankans.