Sala á nýjum fólksbílum í september jókst um 58% frá sama mánuði í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu.

Voru nýskráðir bílar 553 talsins í september en voru 350 í sama mánuði í fyrra. Nemur aukningin því 203 bílum. Á fyrstu níu mánuðum ársins voru 8169 fólksbílar skráðir og er það 30,7% aukning frá fyrra ári.

„Aukning hefur verið í nýskráningum fólksbíla til einstaklinga og fyrirtækja allt árið en þegar komið er fram á þennan árstíma er búið að afgreiða stærstan hluta af þeim bílum sem fara til bílaleiga. Þrátt fyrir það er góður gangur í sölu nýrra bíla sem fara í auknum mæli til einstaklinga og fyrirtækja,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.