Sala á nýjum fólksbílum í nóvembermánuði jókst um 38,1% og voru nýskráðir fólksbílar í mánuðinum 413 stykki. Í sama mánuði á síðasta ári voru þeir 299 og nemur aukningin því 114 bílum. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Bílgreinasambandinu.

Á fyrstu ellefu mánuðum ársins hafa 9.133 fólksbílar verið nýskráðir og er það um 30% aukning frá fyrra ári. Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, segir að ekki hafi dregið úr jákvæðri þróun í sölu nýrra bíla þrátt fyrir að búið hafi verið að afgreiða flestar bifreiðar til bílaleigna í ágúst síðastliðnum.

„Helsta ástæða þessa er að endurnýjunarþörfin er orðin mjög brýn þar sem bílafloti landsmanna er orðin sá elsti í Evrópu. Styrking og stöðugt gengi krónunnar sem og mikil vinna innflutningsaðila hefur skilað því að nýjir bílar bjóðast neytendum á góðum verðum í dag. Því er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld fari ekki út í breytingar á ytra umhverfi greinarinnar nema með góðum fyrirvara en nú þegar er búið að leggja grunn að næsta ári í pöntunum á nýjum bílum fyrir bílaleigur, fyrirtæki og almenning. Það er fyrst nú sem starfsfólk í bílgreininni sér fram á hugsanlega fjölgun starfa og aukinna umsvifa innan greinarinnar,“ segir Özur.