Í desember voru nýskráðir 134 bílar hér á landi sem er aukning upp á 74% frá sama mánuði 2008.

Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofan birti nú í morgun en í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að þessi aukning er sú fyrsta sem mælist yfir tólf mánaða tímabil síðan við upphaf efnahagskreppunnar í febrúar 2008.

Þess má geta að fyrstu tölur um nýskráningu bifreiða sem Hagstofan birti fyrir nóvembermánuð voru rangar. Þar af leiðandi var 101 bíll nýskráður í nóvember 2009  í stað 152 sem er um 18% færri en skráðir voru í nóvember 2008.

Greining Íslandsbanka segir að þrátt fyrir aukninguna í desember var bílainnflutningur hér á landi með minnsta móti á árinu 2009 enda minnkaði sala nýrra bíla snarlega í kjölfar bankahrunsins.

Árið 2009 var heildarfjöldi nýskráðra bifreiða 2.830 en árið 2008 var fjöldi þeirra 12.308. Þetta jafngildir 77% fækkun milli ára.

Þó kemur fram að nokkur fjöldi þeirra nýskráðu bifreiða á árinu 2009 ekki í umferð en tölur Hagstofunnar taka ekki tillit til afskráningar bifreiða, þ.e. fjölda þeirra sem hefur aftur verið fluttur út.

Ef tekið er tillit til þess þá var heildarfjöldi nýskráðra bifreiða á árinu 2009 einungis 2.593 samkvæmt tölum sem Bílgreinasambandið tekur saman.

„Ljóst er að um verulega umskipti er að ræða frá síðastliðnum árum þegar uppsveiflan var við lýði og má geta þess hér til samanburðar að á árunum 2005-2007 voru að meðaltali um 24 þúsund bílar nýskráðir á ári hverju,“ segir í Morgunkorni.