Sala á nýjum fólksbílum í ágústmánuði jókst um 15,6% miðað við sama tímabil í fyrra, en alls voru 496 bílar nýskráðir í mánuðinum. Er það aukning um 67 bíla frá sama mánuði í fyrra.

Samtals hafa 7.616 bílar verið nýskráðir á fyrstu átta mánuðum ársins og jafngildir það tæplega 30% aukningu frá fyrra ári.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Bílgreinasambandinu að sala nýrra bíla hafi verið góð það sem af sé ári, sem og sala notaðra bíla. Aukning hafi verið í nýskráningum fólksbíla til einstaklinga og fyrirtækja allt árið, en á þessum árstíma sé hins vegar venjulega búið að afgreiða stærstan hluta bifreiða til bílaleigufyrirtækja.

„Bílafloti landsmanna er orðinn gamall eða að meðaltali 12 ára. Gamlir bílar eru töluvert óöruggari og eyðslufrekari en nýir bílar og því er það ánægjulegt að sjá að nýskráningum fjölgar,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.