Í desembermánuði voru skráð 147 ný einkahlutafélög, flest í Fasteignaviðskiptum, að því er kemur fram í frétt Hagstofunnar. Til samanburðar voru 137 ný einkahlutafélög skráð í desember 2011. Fjöldi nýskráninga á árinu 2012 er 1.752, en það er tæplega 3% aukning frá árinu 2011 þegar 1.700 fyrirtæki voru skráð.

Þá voru 132 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta í desembermánuði, flest í Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum. Fjöldi gjaldþrota á árinu eru því 1.109, sem er tæplega 30% fækkun frá árinu áður þegar 1.579 fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta. Flest gjaldþrot á árinu voru í Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 227 talsins.