Nýskráningum einkahlutafélaga á árinu 2015 fjölgaði um 16% frá árinu 2014. Alls voru 2.368 ný félög skráð á árinu, borið saman við 2.050 árið áður. Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í fasteignaviðskiptum, þar sem þeim fjölgaði milli ára úr 222 í 352, eða um 59% frá fyrra ári. Kemur þetta fram í tölum Hagstofunnar.

Mest hlutfallsleg fækkun nýskráninga árið 2015 var í upplýsingum og fjarskiptum, eða um 8% borið saman við fyrra ár (úr 185 nýskráningum í 171).

Ef skoðuð er skipting á nýskráningum einkahlutafélaga og hlutafélaga milli landshluta árið 2015 sést að þeim fjölgaði hlutfallslega mest á Vesturlandi, þar sem 81 félag var nýskráð árið 2015, borið saman við 57 nýskráningar árið 2014, sem er 42% hlutfallsleg aukning. Mestur hlutfallslegur samdráttur á nýskráningum milli ára var á Vestfjörðum, þar sem 34 félög voru nýskráð árið 2015, borið saman við 46 árið áður.

Gjaldþrotum einkahlutafélaga á árinu 2015 fækkaði um 27% frá fyrra ári. Alls voru 587 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á árinu, samanborið við 799 árið áður. Gjaldþrotum fækkaði hlutfallslega mest á Norðurlandi eystra, þar sem 12 fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta árið 2015, borið saman við 43 árið áður. Mest hlutfallsleg fjölgun gjaldþrota milli ára var á Suðurlandi, þar sem 63 fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta árið 2015, borið saman við 49 árið áður.