Nýskráningum einkahlutafélaga fjölgaði um 11% frá ágúst 2014 til júlí 2015 borið saman við árið á undan. Á sama tímabili fækkaði gjaldþrotum félaga um 15%. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Sé litið til síðasta árs og fjöldi nýskráninga og gjaldþrota borinn saman við árið á undan, það er að segja ágúst 2013 til júlí 2014, sést að nýskráningum félaga hefur fjölgað mest í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð eða um 38%. Næst á eftir er rekstur gististaða og veitingarekstur, en þar varð 34% fjölgun nýskráninga.

Nýskráningum í sérfræðilegri, tæknilegri og vísindalegri starfsemi fjölgaði einnig mikið, eða um 33%. Gjaldþrotum hefur fækkað mest í framleiðslugeiranum, eða um 34%.