Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur nýskráningum einkahlutafélaga fjölgað síðustu 12 mánuði um 15% í samanburði við 12 mánuði þar á undan.

Alls voru 2.430 ný einkahlutafélög skráð á tímabilinu, borið saman við 2.105 á fyrri 12 mánuðum. Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í fasteignaviðskiptum þar sem þeim fjölgar úr 222 í 383, eða um 73% á síðustu 12 mánuðum.

Meðal annarra greina þar sem nýskráningum hefur fjölgað má nefna byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð þar sem nýskráningum fjölgaði úr 236 í 299 (27%) og leigustarfsemi og ýmsa sérhæfða þjónustu þar sem fjölgunin var úr 153 í 185 nýskráningar (21%).

Mest hlutfallsleg fækkun nýskráninga síðustu 12 mánuði var í upplýsingum og fjarskiptum , eða um 8% frá fyrra tímabili (úr 190 nýskráningum í 174).