Brim hefur hafið samningaviðræður við grænlenska félagið Arctic Prime Fisheries Aps. um kaup á togara félagsins sem verið er að smíða í skipasmíðastöð á Spáni. Ekki er gert ráð fyrir því að viðskiptin muni hafa áhrif á EBITDA-félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Sagt var frá því árið 2017 að stjórn Brims, sem þá hét HB Grandi, hefði ákveðið að semja við skipasmíðastöðina Astilleros Armon Gijon SA um smíði á frystitogara. Samningsupphæðin var fimm milljarðar króna og átti að afhenda skipið í árslok 2019.

Á vormánuðum í fyrra var tilkynnt að samið hefði verið við Marel um uppsetningu FleXicut-kerfis og pökkunarflokkar í nýja togarann. Þá sá Skaginn 3X um uppsetningu vinnsludekks fyrir togarann.

Togarinn var hannaður af Rolls Royce í Noregi og er 81 metri að lengd og 17 metra breiður. Hafði hann að geyma lestarrými fyrir um þúsund tonn af frystum afurðum á brettum.