Tímaritið New York Times tilkynnti í gær að það muni slíta sambandi sínu við Apple í tengslum við smáforritið Apple News.

Apple News er smáforrit sem stofnað var árið 2015 og birtir fréttir frá ýmsum fréttaveitum. Á síðasta ári bættist við áskriftarþjónustan Apple News+, fyrir 9,99 dollara á mánuði, sem býður upp á fréttir frá tímaritum sem hafa greiðsluvegg (e. paywall) á vefsíðum sínum. Meðal tímarita sem áskrifendur fá aðgang að eru The New Yorker, TIME, Vogue, Vanity Fair, National Geographic og The Wall Street Journal.

Þegar Apple tilkynnti áskriftarþjónustuna í fyrra tjáði fyrirtækið tímaritum að með forritinu gætu þau náð til viðskiptavina sem þau myndu annars ekki ná til. Mörg útgáfurit myndu þó selja þjónustu sína á lægra verði en í gegnum eigin vefsíðu og þau þyrftu að deila helmingi tekna milli annarra tímarita en Apple tekur um helming á móti.

Hluti af fréttum frá NYT hafa verið aðgengilegar í gegnum Apple News en tímaritið ákvað þó að taka ekki þátt í áskriftarþjónustunni Apple News+. Í gær hættu fréttir tímaritsins að vera aðgengilegar notendum smáforritsins. NYT hefur ákveðið að leggja áherslu á að fjölga beinum áskriftarsamböndum.

Í frétt NYT segir að Apple hafi gefið lítið eftir varðandi bein sambönd við lesendur og veitt litla stjórn yfir rekstrinum. Tímaritið vonast til þess að lesendur sæki beint á vefsíðu og smáforrit þess til þess að „fjármagna vandaða blaðamennsku“.

„Kjarninn að heilbrigðu viðskiptalíkani milli The Times og verkvanga (e. platforms) er að senda lesendur aftur að okkar umhverfi þar sem við stjórnum framsetningu okkar frétta, samböndum við lesendur og upplag viðskiptahátta,“ sagði Meredith Kopit Levian, forstjóri NYT, í bréfi til starfsmanna. „Okkar samband við Apple News fellur ekki þarna inn“.

Talsmaður Apple sagði að NYT „hafi einungis boðið Apple News nokkrar fréttir á dag“ og að fyrirtækið myndi halda áfram að útvega lesendum traustverðugar upplýsingar frá þúsundum fréttaveita.

„Við erum staðráðin í að styðja vandaða blaðamennsku í gegnum þrautreynt viðskiptalíkan auglýsinga, áskriftarþjónustu og verslunar,“ er haft eftir talsmanninum.

Apple News er ekki aðgengilegt fyrir íslenska notendur.