Efnahagshrunið á Íslandi hefur orsakað ótta, þá sérstakleg á meðal bloggara, greiningaraðila og hóp hagfræðinga, um að sömu örlög bíði Írlands sem einnig er lítið, opið hagkerfi með mikinn viðskiptahalla og allt of stórt bankakerfi.

Þetta kom fram í umfjöllun The New York Times (NYT) um helgina þar sem fjallað var um mögulegt hruna Írlands.

Í umfjöllun NYT var meðal annars rætt við hagfræðinginn Morgan Kelly, sem um nokkurt skeið hefur varað við efnahagshruni á Írlandi. Kelly hefur þó verið kallaður bölsýnismaður af mörgum og segir blaðið hann bera viðurnefnið Dr. Dómsdagur. Sjálfur segir hann þó að hann gefi sér sömu forsendur og hagfræðingar við New York University sem spáðu fyrir um fjármálakrísuna.

„Við höfum farið frá því að vera keltneski tígurinn í að verða Bubbi byggir,“ segir Kelly í samtali við NYT sem árið 2006 fór að vara við efnahagshruni.

Kelly segir að upphafið að hruninu sé nýleg þjóðnýting Anglo Irish Bank, en hann segir bankann vera stöðutákn of mikilla útlána og spillangar. Enn eigi eftir að koma í ljós hvert tapið verður að þjóðnýtingu bankans. Óljóst sé hvort írsk yfirvöld geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart innlánseigeigendum, sem síðan orsakar bankaáhlaup, ríkið verði skuldsett og að lokum þurfi Evrópusambandið að koma til bjargar.

Ekki eru þó allir sammála Kelly. Gerard O’Neill, hagfræðingur og ráðgjafi í Dublin segir í samtali við blaðið að því meira sem sé talað á neikvæðum nótum því líklegra sé að efnahagskerfið hrynji. Þá hefur NYT eftir honum að Írland muni ekki fara sömu leið og Ísland því yfirvöld þar í landi séu vel í stakk búin til að takast á við vandann auk þess sem bankakerfið á Írlandi sé hlutfallslega ekki jafn stórt og á Íslandi.

Sjá nánar umfjöllun New York Times.